Vistaður á geðdeild í gæsluvarðhaldi

Karlmaður er grunaður um að hafa veist að fyrrverandi sambýliskonu …
Karlmaður er grunaður um að hafa veist að fyrrverandi sambýliskonu sinni á Vopnafirði með járnkarli að kvöldi 16. október. Var hann upphaflega vistaður á geðdeild en hefur nú verið úrskurðaður í hefðbundið gæsluvarðhald í fangelsinu á Hólmsheiði. Rannsókn málsins er því sem næst lokið hjá lögreglu. mbl.is/Jón Sigurðsson

„Hann er í varðhaldi og það er úrskurður til 11. desember,“ segir Hlynur Jónsson lögmaður við mbl.is, verjandi grunaða í Vopnafjarðarmálinu, og verður þar með við beiðni um að staðfesta að skjólstæðingur hans hafi verið úrskurðaður áfram í gæsluvarðhald og að þessu sinni í hefðbundnu fangelsi, en maðurinn hafði áður verið úrskurðaður til að sæta vistun á geðdeild vegna ótta um að hann kynni að vera háskalegur sjálfum sér.

Gæsluvarðhaldsúrskurður mannsins átti að renna út 26. nóvember en í október kærði hann til Landsréttar gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Austurlands sem sneri að vistun hans á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun í stað gæsluvarðhalds. Staðfesti Landsréttur úrskurð héraðsdómstólsins.

Féllust báðir dómstólar á þann rökstuðning lögreglu að ætla mætti að varnaraðili, grunaði, torveldaði rannsókn málsins með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni, færi hann frjáls ferða sinna.

„Fari hann aftur í óminnisástand...“

Lét Landsréttur þess getið að fyrir hann hefði verið lagt mat sérfræðings í geðlækningum á Landspítala þar sem fram hefði komið að varnaraðili hefði verið fluttur til mats á bráðaþjónustu geðsviðs 21. október og í kjölfarið verið lagður inn á geðdeild vegna sjálfsvígshættu. Sagði svo: „Varnaraðili sé enn í fullri þörf fyrir innlögn vegna vonleysis, sjálfsásakana og reiði í eigin garð og fari hann aftur í óminnisástand gæti hann auðveldlega reynt að taka eigið líf.“

Að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, yfirlögregluþjóns lögreglunnar á Austurlandi, er rannsókn málsins að mestu leyti lokið af hálfu lögreglu og verður það fljótlega sent héraðssaksóknara til ákærumeðferðar. Þetta tjáði Kristján mbl.is í gær.

Er sá sem vistuninni sætir grunaður um að hafa veist að brotaþola, fyrrverandi sambýliskonu sinni, að kvöldi 16. október, reynt að stinga hana í kviðinn með járnkarli og herða að öndunarvegi hennar með verkfærinu uns hún sá hvítt.

Var lögregla kölluð á vettvang ásamt sjúkraflutningamönnum og fékk þá upplýsingar um að grunaði hefði verið á vettvangi en yfirgefið hann. Kvað brotaþoli grunaða hafa ætlað að drepa hana og veist að henni með járnkarlinum í því skyni. Sagði vitni konuna hafa legið á gólfinu eftir aðfarir grunaða.

Handtekinn á ný

Við handtöku skömmu síðar viðurkenndi grunaði árásina og að málið væri alvarlegt en síðar kom í ljós, eftir skoðun brotaþola á sjúkrahúsi, að atlaga fyrrverandi sambýlismanns hennar hefði getað kostað hana lífið. Sagði í skýrslu þaðan að sjáanlegir áverkar væru miklir, meðal annars mar og sár á vinstri fæti, hálsi og hnakka auk mars á hægri öxl. Þá væri hægri hönd mjög bólgin og mikið sár í hægri lófa.

Hafði grunaða verið sleppt úr haldi en að meðteknu framangreindu sá lögregla sig knúna til að handtaka hann á ný og krefjast gæsluvarðhalds.

Í gögnum lögreglu kemur fram að grunaði beri við minnisleysi um margt af því sem átti sér stað að kvöldi 16. október, kveðst hann hafa farið í svokallað „black out“ og tefldi lögregla þeim rökum fram með gæsluvarðhaldsbeiðni sinni, að sú ráðstöfun væri nauðsynleg til að verja aðra fyrir árásum mannsins, ekki síst brotaþola.

Stigmögnun ofbeldis

Fram kom í úrskurði Héraðsdóms Austurlands að fleiri brot grunaða væru til rannsóknar hjá lögreglu, hvort tveggja brot hans gegn brotaþola í þessu tiltekna máli, en auk þess gagnvart öðrum. Er hér að lokum gripið niður í rökstuðning héraðsdóms:

„Það er því hugsanlegt að um sé að ræða ákveðna stigmögnun ofbeldis hjá varnaraðila. Þá má einnig benda á að sakborningur telur sig sjálfan þurfa að fá geðmat, skv. því sem fyrir liggur í skýrslutöku af honum. Í ljósi þessa og einnig þeirrar viðkvæmu stöðu sem brotaþoli er í sem deilir forræði drengs með kærða, og býr þar sem kærði býr einnig, en um [...] metrar eru frá húsi varnaraðila að húsi brotaþola, telur því lögreglustjóri einsýnt að uppfyllt séu skilyrði um nauðsyn gæsluvarðhalds með tilliti til almannahagsmuna, ekki síst brotaþola.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert