Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn systur sinni yfir rúmlega fjögurra ára tímabil, á árunum 2003 til 2007.
Er hann sakaður um að hafa haft við hana samræði og önnur kynferðismök bæði hér á landi og í sumarfríi erlendis.
Í ákæru málsins er hann sagður hafa brotið ítrekað gegn stúlkunni með ofbeldi og ólögmætri nauðung á umræddu tímabili. Var það meðal annars á heimili þeirra í Reykjavík og í sumarbústaðarferðum, en einnig í eitt skipti í sumarfríi fjölskyldunnar á Spáni.
Er maðurinn sagður hafa með þessari háttsemi ógnað lífi, heilsu og velferð systur sinnar, en tekið er fram að brotin hafi verið framin á sérstaklega meiðandi hátt og að maðurinn hafi misnotað freklega yfirburðastöðu sína gagnvart systur sinni.
Auk þess sem farið er fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar fer konan fram á fimm milljónir í miskabætur. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku.