Augu almannavarna á mikilvægum innviðum

Frá eldgosinu sem hófst á tólfta tímanum í gær.
Frá eldgosinu sem hófst á tólfta tímanum í gær. mbl.is/Eyþór

Almannavarnir eru í góðu sambandi við HS Veitur og HS Orku vegna þess að hraunið úr eldgosinu sem hófst í gærkvöldi stefnir í átt að Njarðvíkuræðinni.

Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, spurð út í stöðu mála.

Hún segir að vel hafi verið fylgst með eldgosinu í alla nótt með aðstoð dróna.

Skiptir máli að geta fylgst með rennslinu

„Það skiptir máli fyrir okkur að geta fylgst með rennslinu. Það er það sem þetta snýst allt um, hversu hratt þetta fer yfir,“ segir Hjördís og bætir við að augu almannavarna séu á mikilvægum innviðum á borð við Njarðvíkuræðinni.

„Það er búið að fergja Njarðvíkuræðina að hluta. Ef hraunið fer yfir æðina kemur í ljós hvernig það heldur,“ bætir hún við.

Hjördís segir of snemmt að sega til um áhrifin ef æðin gefur sig, en heitt vatn fer í gegnum hana.

Hraun rennur ekki í átt að Svartsengi og Bláa lóninu eins og staðan er núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert