Bændur fái einn milljarð í styrk

Starfshópur skipaður þremur ráðuneytisstjórum.
Starfshópur skipaður þremur ráðuneytisstjórum. mbl.is/Atli Vigfússon

Tjónið sem bændur urðu fyrir í vor og sumar hefur verið metið á um það bil einn milljarð króna samkvæmt skráningum bænda og samantekt fulltrúa úr viðbragðshópi sem matvælaráðherra skipaði í byrjun sumars. Sú tala getur tekið breytingum eftir yfirferð starfshóps um málið sem ætlunin er að ljúki í næsta mánuði.

Þetta kemur fram í svari matvælaráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Tillagna að vænta í desember

Blaðið greindi frá því í síðustu viku að ríkisstjórnin hefði samþykkt tillögu matvælaráðherra um skipun starfshóps til að fara yfir tjón bænda og gera tillögur um útfærslu og umfang stuðningsaðgerða. Starfshópinn skipa ráðuneytisstjórar þriggja ráðuneyta, forsætis-, fjármála- og matvælaráðuneytis. Viðbragðshópurinn sem mat skemmdirnar var skipaður fulltrúum matvælaráðuneytis, Bændasamtaka Íslands og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.

Ekki liggur fyrir hvenær tjónið verður bætt en tillögur þess efnis eiga að liggja fyrir í desember.

Um er að ræða sérstaka styrki til að mæta áföllum en ekki bætur, segir jafnframt í svari ráðuneytisins.

Bjargráðasjóður bætir kal

Yfirferð á umsóknum vegna kals stendur yfir hjá Bjargráðasjóði. 300 milljónir eru áætluð fjárþörf sjóðsins til að veita sambærilega styrki og gert var í síðasta stórfellda kaltjóni veturinn 2019-20. Ekki liggur fyrir heildarmat á tjóni en samantekt um það mun liggja fyrir þegar afgreiðslu umsókna lýkur.

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt í ljósi áréttingar frá matvælaráðuneytinu. Upphafleg fyrirsögn var: „Bændur fá einn milljarð í styrk“. Matvælaráðuneytið áréttar að ekki liggur fyrir staðfesting um fjármögnun bóta frá yfirvöldum, enda tillögur að umfangi og útfærslu stuðningsaðgerða enn í mótun hjá starfshóp.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert