Flogið á milli ljósaskipta

Birgir segir flogið á milli ljósaskipta frá um hálftíu á …
Birgir segir flogið á milli ljósaskipta frá um hálftíu á morgnana þar til öðru hvoru megin við fimm síðdegis. mbl.is/Árni Sæberg

Birgir Ómar Haraldsson, forstjóri Norðurflugs, sem meðal annars gerir út þyrluferðir yfir gosstöðvarnar, segir eftirspurn nú heldur minni en þegar síðast gaus við Sundhnúkagígaröðina.

„Þetta kemur svolítið ofan í jólin og það er nú kannski ekki mestur fjöldi erlendra aðila hér akkúrat á þessum árstíma og eftirspurnin endurspeglast dálítið mikið af því,“ segir Birgir sem telur fólk kannski meira heima hjá sér að undirbúa jólin.

Það gaus hvort sínu megin við jólahátíðina á sama tíma í fyrra en Birgir segir minni eftirspurn nú. Það geti spilað inn í að um sé að ræða minna gos og að innviðir séu undir og vísar hann þar til þess að hraun hafi þakið bílastæði við Bláa lónið.

„Okkur þykir afar leitt og miður ef þetta fer að ógna þessu fyrirtæki, sem er einn af stærstu seglunum til landsins, og finnum bara til með þeim,“ segir Birgir.

Sátt við að sjá úr lofti

Þó að eftirspurn sé minni en áður flýgur Norðurflug engu að síður yfir gosstöðvarnar. Birgir segir flogið á milli ljósaskipta frá um hálftíu á morgnana þar til öðru hvoru megin við fimm síðdegis.

„Við erum sjónflugsmenn. Okkur er úthlutað ákveðinni flughæð til að fara yfir þetta sem er á milli 1.500 og 2.500 fet.“

Um 35 mínútna langar ferðir eru í boði, sem kosta samkvæmt heimasíðu Norðurflugs 56.900 krónur.

Birgir segir fyrirtækið reyna að staðla ferðirnar þannig að hver og einn fái sömu upplifun. Ekki er lent við gosstöðvarnar en þyrlan fer hægt yfir að sögn Birgis og fólk sér mjög vel út.

„Fólk er mjög sátt við að sjá þetta bara úr lofti eins og þetta er.“

Líta fréttir öðrum augum

Kveðst Birgir hafa áhyggjur af fréttaflutningi af eldgosunum og segir ekki víst að útlendingar meti fréttirnar á sama hátt og við.

„Þeir geta horft á að hraun sé að koma að vinsælasta staðnum á landinu og meta það kannski sem svo að það sé hættuástand og ætli þess vegna ekki að koma nálægt þessu.“

Segir hann umfjöllun litna öðrum augum erlendis en hér þar sem við höfum upplifað mörg gos.

„Við erum svona: „Já ókei, eitt gos í viðbót“ en þeir bara: „Heyrðu, það er eldgos og það er næstum því að fara yfir Bláa lónið.““

Geti útlendingar þá jafnvel orðið hræddir að mati Birgis og velt fyrir sér hvað verði með veginn til aðalflugvallarins og síðan hvort þeir séu hugsanlega fastir inni í landi þar sem bæði er mjög dýrt að gista og lifa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert