Hluti bílastæðis komið undir hraun: Ómögulegt að meta tjón

Eins og sjá má er stór hluti bílastæðisins við Bláa …
Eins og sjá má er stór hluti bílastæðisins við Bláa lónið kominn undir hraun og virðist það byrjað að dreifa aðeins úr sér. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hluti bílastæðis við Bláa lónið er þegar farinn undir hraun. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu hjá Bláa lóninu segist hafa verið í samtölum við viðbragðsaðila.

„Við fylgjumst bara með eins og aðrir og vonum það besta,“ segir Helga.

Ómögulegt að segja til um tjónið

Um er að ræða helstu bílastæði Bláa lónsins og eru þar stæði fyrir um 350 bíla auk rútustæða. Að sögn Helgu þarf að meta aðkomu að Bláa lóninu þegar þar að kemur og þá hvort möguleikar séu á að nýta annað aðgengi fyrir aðkomubíla.

„Það er ómögulegt að segja til um tjónið á þessum tímapunkti en við munum sjá þetta betur þegar fram líða stundir og þá hvernig hægt verður að bregðast við. Það eru einhverjir bílastæðamöguleikar við lónið en við þurfum að skoða það betur í framhaldinu,“ segir Helga.

Hraunið er nýlega komið inn á planið við Bláa lónið.
Hraunið er nýlega komið inn á planið við Bláa lónið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 

Gestir sýndu yfirvegun og fá endurgreitt

Að sögn hennar tóku ferðamennirnir vel í það þegar þeir voru beðnir að yfirgefa hótel Bláa lónsins.

„Gestir sýndu þessu skilning og starfsmenn sýndu mikla fagmennsku og yfirvegun líkt og áður,“ segir Helga.

Hótelgestir voru fluttir á önnur hótel. Hingað til hafa gestir annað hvort verið fluttir á hótel í Reykjavík eða í Reykjanesbæ.

„Við reynum að koma til móts við þarfir hvers og eins,“ segir Helga.

Að sögn hennar hefur engin gesta frá fyrri eldgosum sótt bætur en allir fá endurgreiðslu vegna dvalar sinnar á hótelinu þegar slíkar aðstæður koma upp.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, markaðs- og þjónustu hjá Bláa lóninu.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, markaðs- og þjónustu hjá Bláa lóninu. Samsett mynd/mbl.is Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert