Hraun fór yfir Grindavíkurveg um hálffimmleytið í nótt á svipuðum slóðum og það hefur áður farið yfir veginn.
Hraunið heldur áfram í vesturátt. Síðustu klukkustundina skreið hraunið áfram 300 til 350 metra vegalengd, að sögn Minneyjar Sigurðardóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Hraunið stefnir í átt að Njarðvíkurlögninni og klukkan 6 í morgun var það tæplega 600 metra frá henni. Minney segir að það líti út fyrir að hraunið nái þangað nema að það stöðvist á næstu klukkustund.
„Þessi þriggja kílómetra gossprunga sem var virk í byrjun gossins hefur dregist saman og er mest virk í miðpartinum á henni,“ segir Minney. „Það hefur dregið úr bæði í suður- og norðurpartinum, þannig að það hefur dregið úr gosinu en það er áfram virkt og gýs ennþá.“
Hún segir gosið mun minna en síðustu tvö gos.
Spurð hvort það muni reyna á varnargarða kveðst hún ekki telja það en að það gæti þó breyst.
Veðurstofan og viðbragðsaðilar vakta svæðið.
Gas mælist alveg við gosið en núna er engin gosmengun í byggð. Gasdreifingaspáin sýnir annars dreifingu í suðsuðvestur.
Veðurstofan fundar með morgninum og er von á fréttatilkynningu upp úr klukkan 10 með nýjustu hraunlíkönum meðal annars.
Uppfært kl. 6.50:
Fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands að hraunflæði úr eldgosinu haldi áfram til vesturs og norðurs.
Nyrðri hrauntungan rennur ekki í átt að neinum innviðum en vestari hrauntungan, sú sem rennur milli Sýlingarfells og Stóra Skógfells og rann yfir Grindavíkurveginn í nótt, nálgast Njarðvíkuræð.