Staðsetning nýja eldgossins er heppileg en hraun gæti þó runnið yfir Grindavíkurveg.
Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.
„Í augnablikinu þá eru innviðir ekki í hættu. Við getum auðvitað þurft að hafa áhyggjur af Grindavíkurvegi, hraun gæti runnið yfir Grindavíkurveg eins og hefur gerst áður. En að öðru leyti þá held ég að við séum með þetta allt í svona þokkalegum tökum,“ segir Úlfar.
Eldgosið hófst nærri Stóra-Skógfelli kl. 23.14 og er talið minna en síðasta eldgos. Úlfar segir vindátt vera mönnum hagstæð.
Búið er að setja upp lokunarpósta á Grindavíkurvegi við Reykjanesbraut og á Suðurstrandarvegi við Fagradalsfjall og á Nesvegi við Hafnir.