Innan við kílómetra frá Grindavíkurvegi

Frá eldgosinu sem hófst á tólfta tímanum.
Frá eldgosinu sem hófst á tólfta tímanum. mbl.is/Eyþór

„Þetta hraunrennsli virðist vera á dálítilli ferð og stefnir í átt að Grindavíkurvegi,“ segir Runólfur Þórhallsson, sviðsstjóri almannavarna, við blaðamann mbl.is í samhæfingarstöðinni sem var virkjuð á tólfta tímanum í kvöld.

Eins og er stefnir hraunið ekki í átt að Grindavík heldur rennur það í vesturátt, en Runólfur segir hraunið nálægt veginum.

„Það er að mér skilst einhver, tja, innan við kílómetri.“

Virðist í minna lagi

Hann segir að á þessari stundu skoði almannavarnir mögulegar sviðsmyndir sem geti orðið í tengslum við innviði og hvaða ráðstafana þurfi að grípa til.

Haldi hraunflæðið áfram með svipuðum styrk geti það stefnt í áttina að lögnum sem þurfi að verja. Eins þurfi að fylgjast með því hvort varnarmannvirkin haldi örugglega.

Gosið virðist í minna lagi miðað við stærstu gosin. Ótímabært sé að segja til um hversu lengi gosið kunni að vara að sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert