Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu – fulltrúar lögreglustöðvar 1 sem annast miðborgina, Vesturbæ, Austurbæ og Seltjarnarnes – hélt á vettvang vinnuslyss í Vogunum í dag þar sem lyftara hafði verið ekið yfir fót vinnandi manns og var hann fluttur undir læknishendur með fulltingi sjúkraflutningafólks.
Er þetta meðal þess helsta sem lögregla skráði í dagbók sína tímabilið frá klukkan 05 á fimmtudagsmorgun og þar til jafnlengdar síðdegis, klukkan 17.
Um það leyti er lögregla sendi fjölmiðlum króníku sína gistu tveir fangageymslur hennar en 45 mál voru bókuð í kerfum lögreglu framangreindar tólf klukkustundir. Almennt lögreglueftirlit og aðstoðarbeiðnir ýmsar eru ekki inni í þeirri tölu.
Vinnuslysið var ekki eina lögreglumálið í Vogunum þennan fimmtudaginn. Tilkynnandi nokkur hafði samband og sagði af ungum börnum sínum sem læst höfðu sig inni á baðherbergi og voru allar bjargir bannaðar. Þurftu aðvífandi lögreguþjónar að rjúfa hurð baðherbergisins til að veita ungviðinu frelsi sitt á ný. Reyndust þau ekki hafa beðið hnekki af.
Þá sektuðu lögregluþjónar af lögreglustöð 1 ökumann fyrir akstur gegn rauðu ljósi og annar hlaut sömu örlög fyrir réttindalausan akstur gegn rauðu ljósi.