„Það virðist smám saman vera að draga úr krafti gossins en það er ómögulegt að segja til um það hversu langt þetta gos verður.“
Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Sjöunda gosið, og það sjötta á þessu ári, á Sundhnúkagígaröðinni hófst klukkan 23:14 í gærkvöld. Aflögun sem mældist áður en eldgosið kom upp var mun minni en áður og voru merkin veikari en í fyrri atburðum.
„Það má segja að þetta gos hafi þjófstartað. Það fór af stað löngu áður en öll hefðbundin merki sem við höfum séð sem fyrirvara sýndu þau voru ekki farin af stað af neinu viti. Kerfið var rétt að ná þeim mörkum sem voru fyrir síðasta gos,“ segir Benedikt.
Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands í fyrradag kom fram að ólíklegt væri að eldgos myndi brjótast út í nóvember samkvæmt síðustu gögnum Veðurstofunnar en um miðjan október sagði Benedikt í viðtali við blaðamann mbl.is að ólíklegt væri að það gerðist eitthvað mikið fyrr en um miðjan nóvember og taldi möguleika á kosningagosi.
„Fyrirvarinn á atburðinum sjálfum í gærkvöld var mjög svipaður og hefur verið nema að merkin voru veikari. Við fengum alveg þriggja kortera fyrirvara en minnst hefur hann farið niður í hálftíma,“ segir hann.
Benedikt segir að langtímamerkin hafi ekki farið að sýna sig en þar á hann við aukna skjálftavirkni fyrst og fremst.
„Við höfum séð það fyrir marga af þessum atburðum þá hafa komið tilraunir til þjófstarts og það eru ekki liðnar nema þrjár vikur síðan það kom smá skot sem varð síðan ekkert úr,“ segir hann.
Benedikt segir að gosið sem hófst í gærkvöld hafi komið upp á góðum stað en það sé óheppilegt hversu langt hraunið hafi runnið. Það tók Grindavíkurveginn í sundur í nótt og þá hefur hraunið farið yfir Njarðvíkurlögnina sem menn binda vonir við að haldi. Þá er það komið yfir bæði heitavatns- og kaldavatnslagnir sem liggja til og frá Svartsengi auk þess sem hraunið er undir Svartsengislínunni.
Hann segir að tíminn sé að lengjast á milli gosa og væntanlega verði ekki jafnmörg gos á næsta ári og hafa verið á þessu ári.
„Svo er spurning hvenær líður að lokum. Sú þróun að það sé að lengjast á milli gosa er kannski vísbending um að það sé farið að síga á seinni hlutann en hvað það þýði mörg gos til viðbótar er ekki nokkur leið að segja til um.“