Nýr samningur við sjálfstætt starfandi leikskóla var samþykktur samþykktur í borgarráði í dag. Í samningnum er meðal annars kveðið á um að foreldrar reykvískra barna hafi forgang á því tímabili þegar innritun fer fram fyrir komandi haust.
Einnig verða gerðir samningar við hvern og einn leikskóla sem verða aðlagaðir að fjölda og aldri barna þar sem form leikskólanna er mismunandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Þar segir að þær breytingar sem foreldrar muni þó helst finna fyrir sé betri heildarsýn yfir alla leikskóla í Reykjavík þar sem þeir verði nú allir tengdir í kerfi sem kallast Vala leikskóli. Þar geta foreldrar séð hvaða leikskólar eru í boði og í hvaða hverfum ásamt því að geta fylgst með stöðu biðlista út frá kennitöluröð.
„Leikskólareikninn er tengdur Völu og því verða pláss í sjálfstætt starfandi leikskólum tekin með í reikninginn. Í Leikskólareikninum geta foreldrar skoðað áætlaða stöðu síns barns eða barna á biðlista í hverjum leikskóla út frá fyrsta vali eða óháð vali á leikskóla.“
Í samningnum kemur fram að sjálfstætt starfandi leikskólar skuli byggja á Menntastefnu Reykjavíkurborgar og taka mið af Mannréttindastefnu borgarinnar.
Gert er ráð fyrir að kostnaður borgarinnar vegna samningsins muni hækka um 290 milljónir króna árlega frá eldra líkani til að bæta stöðu sjálfstætt starfandi leikskóla vegna hækkandi rekstrarkostnaðar.
Hækkuninni er meðal annars ætlað að mæta launakostnaði, fjölgun undirbúningstíma, afleysingum og hækkun hráefniskostnaðar.
Samningurinn tekur gildi 1. janúar næstkomandi.