Drónaljósmyndarinn Ísak Finnbogason þurfti óvænt að lenda drónanum sínum eftir að rafhlaðan tók að tæmast innan við kílómetra frá eldgosinu. Hann vonast til að geta sótt drónann áður en hraunið nær honum.
Þetta segir Ísak í samtali við mbl.is, en hann heldur úti vinsælli Youtube-rás þar sem hann hefur vakið athygli fyrir bein streymi úr lofti af eldgosunum á Reykjanesskaga og kvöldið í kvöld var engin undantekning.
Áhorfendur tóku þó eftir því að á ákveðnum tímapunkti hætti dróninn að senda út frá gosinu.
„Þegar það er svona mikið frost og vindur þá er rafhlaðan fljót að klára sig,“ segir Ísak og bætir við:
„Þetta leit ekki vel út, ég hélt að þetta yrði síðasta skiptið og að hann myndi enda í hraunpollinum. En ég einhvern veginn rétt náði að koma honum út og mun vonandi finna hann á morgun ef hann verður ekki kominn undir hraun.“
Hann er með GPS-hnit á drónanum og telur að hann sé í um það bil 600 metra fjarlægð frá hraunstreyminu, þó það sé erfitt að meta það. Hann segir að hraunið virðist ekki vera að renna í átt að drónanum.
Ísak tekur skýrt fram að hann muni aðeins sækja drónann ef hann er ekki inni á bannsvæði og kveðst munu meta aðstæður á morgun.