Rafmagn er aftur komið á í Grindavík en Svartsengisvirkjun féll út af neti Landsnets í kjölfar þess að Svartsengislína leysti út.
Ástæða rafmagnsleysisins var hraunrennsli undir línu og tilkynnt var um rafmagnsleysið rúmlega níu í morgun. Búið var að koma rafmagni á að nýju um klukkan 9.50.
Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að komið hafi flökt á rafmagnið á Reykjanesi og í Hafnarfirði einnig þegar Svartsengislína sló út en ekki kom til rafmagnsleysis þar.
„Að öllum líkindum verður ekkert hægt að fara í viðgerð á Svartsengislínu fyrr en atburðurinn er genginn yfir. Rafmagni var komið á með öðrum leiðum.“