Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi á einhvern hátt verið stjórnlaus á síðari hluta kjörtímabilsins og stöku þingmenn hans verið í stjórnarandstöðu og komist upp með það.
Þetta kemur fram í auglýsingaþætti sem flokkurinn framleiddi og deilir nú á samfélagsmiðlum.
Í þættinum, sem ber nafnið Eldhússpjall, ræðir Sigurður Ingi við Millu Ósk Magnúsdóttur, en hún var aðstoðarmaður Willums Þórs Þórssonar og Lilju Alfreðsdóttur, tveggja ráðherra Framsóknarflokksins.
Í sérstakri klippu úr þættinum sem nú er í deilingu er rætt við Sigurð Inga um samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. Segir hann að fljótlega á seinna kjörtímabili ríkisstjórnarinnar hafi komið í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn væri ósáttur við að vera í ríkisstjórninni og að einstaka þingmenn hans verið beinlínis í stjórnarandstöðu.
„Í ljós kom að smátt og smátt og hefur verið að raungerast núna í rúmt eitt og hálft ár að það var mjög erfitt að vera í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn því hann var á einhvern hátt stjórnlaus. Menn gerðu bara það sem þeim datt í hug og komust upp með það. Þannig hefur það held ég aldrei verið í sögu Sjálfstæðisflokksins. Allavega ekki núna seinni áratugina,” segir Sigurður Ingi í þættinum.