Lögreglan á Hverfisgötu var kölluð til vegna þjófnaðar á hóteli þar sem brotist hafði verið inn í starfsmannaaðstöðu og munir teknir þaðan.
Einnig var tilkynnt um eignaspjöll þar sem maður hafði sparkað upp hurð. Lögreglan hefur upplýsingar um gerandann og er málið í rannsókn, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun.
Ökumaður var stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Lögreglan hafði verið að leita að ökumanni bifreiðarinnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann hafði skömmu áður valdið umferðaróhappi og hafði stungið af frá vettvangi. Ökumaðurinn var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Lögreglan sem annast verkefni í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi stöðvaði ökumann eftir að hann mældist á 134 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 80 km/klst. Annar ökumaður var stöðvaður á 117 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er einnig 80 km/klst.