Þrátt fyrir að Svartsengislína hafi dottið út nú fyrir skömmu gekk vel að koma varaafli á virkjunina og þannig halda heitavatnsframleiðslu gangandi án neinna tafa. Þetta staðfestir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku, í samtali við mbl.is.
Virkjunin framleiðir meðal annars meirihluta heits vatns fyrir Suðurnesin.
Heitavatnsframleiðsla í Svartsengi er háð bæði köldu vatni og rafmagni, en kalda vatnið kemur með lögn úr Lágum, norðvestan við Svartsengi og rafmagn kom með Svartsengislínu. Kaldavatnslögnin er að hluta til í jörðu, líkt og heitavatnslögnin sem lögð var að hluta í jörð í febrúar eftir að heitt vatn fór af stórum hluta Suðurnesja.
Hraun hefur þegar runnið yfir báðar lagnirnar, en Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku og Runólfur Þórhallsson, settur sviðsstjóri almannavarna, eru bjartsýnir á að þær lagnir haldi.
Svartsengislína datt út eftir að hraun frá eldgosinu rann undir línuna. Þrátt fyrir að hækkað hafi verið undir möstur línunnar fyrr í ár, þá olli gríðarlegur hiti frá hrauninu því að línan seig og sló að lokum út.