Varð var við eldgosið í baksýnisspeglinum

Sprungan teygir sig til norðausturs.
Sprungan teygir sig til norðausturs. Skjáskot/Sjónvarp Víkurfrétta

Hilmar Bragi Bárðarson, fréttastjóri Víkurfrétta, varð var við rauðan blossa í baksýnisspeglinum þegar hann var að flýta sér á skrifstofu sína í Reykjanesbæ eftir að fjölmiðlar fengu póst frá Veðurstofunni um að kvikuhlaup væri hafið og að eldgos gæti mögulega fylgt.

Hann segir starfsmenn Víkurfrétta ekki hafa átt von á eldgosi núna og var því slökkt á vefmyndavél í glugga skrifstofunnar sem vísar í átt að gosstöðvunum.

Teygir sig hratt í norðaustur

Hilmar segir gossprunguna teygja sig hratt í norðausturátt, eða á mjög svipaðar slóðir og síðast eldgos. Hann segir kvikustrókana vel sýnilega úr Reykjanesbæ og að himinninn lýsist upp.

„Ég sé þetta bara mjög skýrt og greinilega,“ segir Hilmar.

Hilmar var fljótur að stinga vefmyndavélinni í samband eftir komuna á skrifstofuna og má nú fylgjast með gossprungunni á YouTube-síðu Víkurfrétta.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert