Fundað var í allan dag í kjaraviðræðum kennara og lækna í Karphúsinu og eru samninganefndir beggja stétta boðaðar á samningafund aftur á morgun klukkan 13.
Þetta segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.
Nefnir hann að í báðum deilum standi málin þannig að nú sé hópavinna í gangi sem leyfð verði að þróast í fyrramálið.
„Þegar maður er að vinna í svona samningum þá eru svona alls konar sérhlutir sem er skipt niður í einhverja parta og hópa,“ segir Ástráður.
„Stundum hangir framvinda heildardæmisins á því hvernig okkur reiðir af í slíkum minni hópum og þá er kannski minna að gera fyrir samninganefndirnar í heild sinni þegar slíkir hópar eru að störfum,“ bætir hann við.
„Fyrir tilviljun er í báðum þessum málum staðan þannig núna að við ætlum að nýta morguninn í slíka vinnu. Þannig að samninganefndirnar í heild sinni eru boðaðar báðar klukkan 13.“
Greint var frá því í dag að boðað hefði verið til verkfalla í fjórum skólum til viðbótar sem myndu hefjast 6. janúar næstkomandi.
Samtals hafa þá verið boðuð verkföll í sautján skólum, en þessa stundina eru kennarar í tíu skólum í verkföllum.
Aðspurður segist Ástráður ekki viss um hvort frekari verkfallsboðanir hafi nokkur áhrif á andrúmsloft samningafundanna.
„Það náttúrulega eru verkföll í gangi og það er auðvitað aldrei gott en ég er ekki viss um að það breyti neinu hvort að skólunum fjölgi eitthvað, ég er ekki viss um það.“
Þá segir hann hægfara gang vera í deilunni og að það hafi ekki enn fundist flötur fyrir deiluaðila sem komi málinu almennilega af stað.
„Ég get ekki sagt að það séu einhverjar verulegar breytingar til batnaðar í því.“
Hins vegar séu kjaraviðræður lækna á allt öðrum stað og segir Ástráður að þær viðræður séu búnar að vera í uppbyggilegum fasa mjög lengi og séu enn.
„En það er mjög mikil vinna að finna út úr öllum öngum málsins. Þannig það bara tekur langan tíma. Það er bara einfaldlega þannig.“