Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu hjá Bláa lóninu, segir að nú taki við að melta þá stöðu sem komin er upp í kjölfar þess að meginbílastæði lónsins eru farin undir hraun. Í heild fóru um 350 stæði undir hraun auk rútustæða.
„Við erum fyrst og síðast að sjá í gegnum þessa atburði og meta stöðuna í framhaldinu,“ segir Helga.
Að sögn Helgu hefur allur gangur verið á því hve langan tíma það hefur tekið að opna Bláa lónið eftir síðustu eldgos.
„Það hefur verið allt frá því að vera einn eða tveir dagar og upp í vikur. Það hefur verið misjafnt eftir því hvernig atburðirnir hafa haft áhrif á okkar athafnasvæði,“ segir Helga.
Spurð þá treystir hún sér ekki til þess að segja til um það hvenær hægt verður að opna lónið eftir þessa síðustu atburði. Hún segir að skoða verði svæðið varðandi bílastæði upp á framhaldið.
„Þetta er ný áskorun sem við verðum að takast á við. Nú þurfum við að vega og meta möguleika en fyrst og síðast þurfum við að sjá í gegnum þessa atburði til að átta okkur á framhaldinu,“ segir Helga.
Auk þess sem bílastæðið fór undir hraun varð einnig þjónustuhús jarðeldinum að bráð. Að sögn Helgu er um að ræða hús sem hugsað var sem tímabundin lausn fyrir ferðamenn að geyma ferðatöskur sínar. Engin taska var í húsinu þegar eldgos hófst í gærkvöldi enda var það utan opnunartíma lónsins.