Mannanafnanefnd hefur samþykkt eiginnafnið Brettingur en nafninu var þó hafnað sem millinafni.
Segir í úrskurði nefndarinnar að til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt millinafn þurfi öll skilyrði 6. gr. laga um mannanöfn að vera uppfyllt.
Í málinu reyndi á 1. lið skilyrðanna en þar segir að millinöfn megi ekki hafa nefnifallsendingu, sem Brettingur geri með -ur, og fullnægi þess vegna ekki skilyrðunum.
Hins vegar var til vara krafist að Brettingur yrði samþykkt sem eiginnafn og þurfti þá að uppfylla öll skilyrði 5. gr. laga um mannanöfn.
Segir í úrskurðinum að Brettingur muni taka íslenskri beygingu í eignarfalli, Brettings, og uppfyllti að öðru leyti öll ákvæði 5. greinarinnar.
Var því nafninu Brettingur hafnað sem millinafni en það samþykkt sem eiginnafn og verður það fært á mannanafnaskrá.
Þá hefur mannanafnanefnd einnig samþykkt millinafnið Úlfberg og eiginnafnið Gandri.
Sjá má úrskurði nefndarinnar hér.