Hættumat lækkað í Grindavík

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat við Svartsengi og gildir það …
Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat við Svartsengi og gildir það til 25. nóvember, að öllu óbreyttu. Kort/Veðurstofa Íslands

Hættumat vegna eld­goss­ins hef­ur verið upp­fært. Helsta breyt­ing­in er sú að heild­ar­hætta í Grinda­vík, er nú met­in tölu­verð, en hún var áður met­in mik­il.

Þetta kem­ur fram á vef Veður­stofu Íslands en hættumatið er að öllu óbreyttu í gildi til kl. 15:00 þann 25. nóv­em­ber.

Hægt á fram­rás hrauns­ins

Síðan í gær hafa þrjú svæði verið virk á gossprung­unni á milli Stóra-Skóg­fells og Sýl­ing­ar­fells. Virkni í þeim var nokkuð stöðug í nótt en mesta virkn­in er í gígn­um sem er í miðjunni.

Tölu­vert hef­ur hægt á fram­rás hrauns­ins norðan varn­argarða við Svartsengi. Hrauntung­an þar hef­ur mætt fyr­ir­stöðu í lands­lag­inu og dreif­ir því úr sér til norðurs frá varn­ar­görðunum og þykkn­ar.

Miðað við upp­hafs­fasa eld­goss­ins hef­ur dregið mikið úr hraun­rennsli frá gossprung­unni en þó er enn tölu­vert flæði frá virku gíg­un­um, sér­stak­lega til vest­urs.

Land held­ur áfram að síga

Litl­ar breyt­ing­ar hafa mælst á gosóróa sem sam­ræm­ist því að stöðug virkni sé í eld­gos­inu. Hraun­rennslið er aðallega í vest­ur og kem­ur sá hraun­straum­ur frá gígn­um í miðjunni, en hraun frá syðri og nyrðri hluta gossprung­unn­ar renna að mestu leyti til aust­urs en ógn­ar eng­um innviðum þar.

Land held­ur áfram að síga í Svartsengi sem er í sam­ræmi við að tals­vert flæði er enn í gos­inu. Um 10 millj­ón rúm­metr­ar af kviku streymdu úr kviku­hólf­inu á fyrstu klukku­stund­un­um sem er um helm­ing­ur af því rúm­máli sem safn­ast hafði í kviku­hólfið síðan í síðasta eld­gosi.

Þró­un­in á sig­inu í Svartsengi er sam­bæri­leg miðað við það sem sást í upp­hafi síðustu tveggja eld­gosa. Bú­ast má við að land haldi áfram að síga meðan flæðið í eld­gos­inu helst hátt.

Hætta á jarðfalli sú sama og fyr­ir gos

Sam­kvæmt mæl­ing­um og sjónskoðun sem jarðkönn­un­art­eymi Ísor, Eflu og Verkís fram­kvæmdu í gær, voru eng­in skýr um­merki um nýj­ar hreyf­ing­ar á sprung­um og eng­ar nýj­ar sprung­ur sjá­an­leg­ar inn­an Grinda­vík­ur.

Því hef­ur hætta á jarðfalli ofan í sprung­ur og sprungu­hreyf­ing­um verið lækkuð og er nú met­in eins og fyr­ir upp­haf yf­ir­stand­andi goss.

Hætta á hraun­flæði og gjósku­falli er einnig met­in minni á svæði 4 enda stefn­ir ekk­ert hraun á bæ­inn. Vegna ríkj­andi vindátta á næstu dög­um er hætta á gasmeng­un met­in mjög mik­il. Eng­ar breyt­ing­ar eru á heild­ar­hættu á öðrum svæðum.

Gas­dreif­ing­ar­spá í dag er norðaust­læg átt og á morg­un berst gasmeng­un til suðvest­urs í átt að Grinda­vík og Svartsengi. Ekki er bú­ist við gróðureld­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert