„Hafa farið gegn stjórnarfrumvörpum trekk í trekk“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segist hafa verið að lýsa því augljósa sem allir hafa séð að það sé ekki búin að vera mikil stemning í stjórnarliðinu þótt það sé allt í góðu við ríkisstjórnarborðið.

Þetta sagði Sigurður Ingi við mbl.is eftir fund ríkisstjórnarinnar í morgun en í auglýsingaþætti sem Framsóknarflokkurinn framleiddi segir hann að Sjálfstæðisflokkurinn hafi á einhvern hátt verið stjórnlaus á síðara hluta kjörtímabilsins og stöku þingmenn flokksins verið í stjórnarandstöðu og hafi komist upp með það.

„Einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa farið gegn stjórnarfrumvörpum trekk í trekk og það hefur blasað við mér að það er á mörkunum að Sjálfstæðisflokkurinn, eins öflugur og hann hefur alltaf verið, er varla stjórntækur búinn að vera síðustu mánuðina. Enda sprengdi hann ríkisstjórnina,“ segir Sigurður Ingi við mbl.is.

Spurður hvort Sjálfstæðisflokkurinn verði stjórntækur eftir kosningarnar segir Sigurður Ingi:

„Það verður að koma í ljós. Ekki veit ég það.“

Gætir þú hugsað þér að starfa með Sjálfstæðisflokknum?

„Við störfum að sjálfsögðu með öllum þeim sem við eru tilbúin að ná samkomulagi um að vinna eftir en það samkomulag verður auðvitað að halda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert