Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hafnar því algjörlega að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki verið stjórntækur. Svarar hann þar orðum Sigurðar Inga Jóhannsson, formanns Framsóknarflokksins, sem heldur því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi á einhvern hátt verið stjórnlaus á síðari hluta kjörtímabilsins.
Bjarni segist lesa í orð Sigurðar Inga að honum hafi þótt slæmt að margir þingmenn væru með stór orð uppi um stjórnarsamstarfið en það hafi ekkert með Sjálfstæðisflokkinn að gera að hann hafi ekki verið stjórntækur. Það hafi verið sjálf ríkisstjórnin sem hafi klárað erindi sitt og það sé miklu betri lýsing á því sem hafi verið að gerast.
„Ég get tekið undir það að vorþingið 2023 hafi verið ákveðið viðvörunarmerki en það reiknast alls ekki á Sjálfstæðisflokkinn. Það voru einmitt mál frá Sjálfstæðisflokknum sem höfðu verið afgreidd í ríkisstjórn sem voru ekki að fá framgang í þinginu,“ segir Bjarni við mbl.is.
Hann segir að það ætti ekki að koma neinum á óvart að þegar ítrekað hefur þurft að semja um mál til dæmis um útlendingamálin og líka á sviði orkumála að þá hafi komið að því að Sjálfstæðisflokkurinn setti niður fótinn.
„Ég hafna því algjörlega að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki verið stjórntækur en það voru komnir brestir í ríkisstjórnarsamstarfið vegna þess að þingmeirihlutinn var ekki að klára útlendingamál, var ítrekað að ýta undan sér lögreglumálum, orkumál voru of tafsöm og önnur mál sem höfðu fengið afgreiðslu ríkisstjórnarinnar voru ekki að komast áfram,“ segir Bjarni, sem sleit ríkisstjórnarsamstarfinu í síðasta mánuði og boðaði til kosninga sem fram fara 30. nóvember næstkomandi.
Hann segir að þessi atriði hafi gefið merki um veikleika stjórnarinnar vorið 2023.
Spurður hvort ummæli Sigurður Inga þýði að flokkarnir geti ekki unnið áfram saman eftir kosningarnar segir Bjarni:
„Ég tel að það hafi alltaf verið gott samstarf á milli okkar Sigurðar Inga og þó hann hafi sínar skoðanir hvernig þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi verið þá var í raun bara verið að ræða þar um ákveðna veikleika í stjórnarsamstarfinu sem var óumflýjanlegt annað en að tala um.“