„Þetta hefur bara þróast eins og við áttum von á, virknin afmarkast við ákveðin gígop og mallar bara áfram, framleiðir sína kvikustróka og sitt hraunrennsli,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Heitt nýrunnið hraun þekur nú bílastæði og allt aðkomusvæði gesta við einn annálaðasta ferðamannastað landsins, eftir að jarðeldar brutust út við Sundhnúkagíga og hraunelfur tók að streyma þaðan í vestur, yfir Grindavíkurveg og meðfram þeim varnargörðum sem reistir hafa verið við Svartsengisvirkjun og Bláa lónið.
Þeim skörðum sem voru á görðunum var lokað skömmu áður en snarkandi hrauntungan liðaðist þar fram hjá. Eldsumbrotin komu vísindamönnum á óvart, sem flestir höfðu búist við næsta gosi í desember.
Prófessorinn segir hægt og rólega draga úr gosinu og spurningin sé helst hvort það sem eftir lifir goss verði mælanlegt í dögum eða vikum. „Þetta er aðeins rólegra en hefur verið og ekkert óvænt í þessu þannig séð, þetta er sama gosrás og í síðustu gosum, virknin hefur afmarkað sig við miðhlutann á reininni og er ekkert að teygja sig norður eftir eða suður eftir. Þetta er í mjög temmilegum skorðum og hentugt gos að öllu leyti fyrst við vorum að fá gos á annað borð,“ heldur Þorvaldur áfram og blaðamaður nefnir að nú sé þó höggvið nærri helsta ferðamannafjöreggi þjóðarinnar, lóninu bláa.
„Já, það rann þarna yfir bílastæðið hjá Bláa lóninu,“ svarar Þorvaldur en þykist þess þó fullviss að þar sé hin svása svalalind hvergi nærri horfin, svo vísað sé í uppgjör skáldsins frá Skógum í Þorskafirði við hafísinn í samnefndu kvæði.
„Ég held að Bláa lónið sjálft hafi ekki verið í neinni hættu, varnargarðarnir stóðu fyrir sínu og fyrst hraunið fór svona langt þarna fór þetta bara eins og við var að búast,“ les prófessorinn í spilin og stöðuna á Reykjanesskaganum hvers íbúar hafa marga fjöruna fengið að súpa síðasta árið.
Ég veit að stórt er spurt en heldurðu að lónið geti treyst á þessa varnargarða í framtíðargosum sem við vitum nú að verða?
„Ég held það já,“ svarar Þorvaldur um hæl og færir rök sín: „Núna er komið hraun alveg upp að garðinum og það er þá orðið hluti af vörninni, svo það mun halda næsta hraunflæði lengra frá og leiða það heldur vestur eftir en suður í átt að Bláa lóninu. Ég held að varnargarðarnir hafi sýnt sig og sannað, þetta er fjárfesting sem hefur margborgað sig,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðiprófessor að lokum um líklega síðasta eldgosið á Íslandi árið 2024.