„Ég hef verið í viðskiptum við Íslandsbanka frá stofnun hans,“ hefur Þórhallur Gunnarsson, ráðgjafi og fjölmiðlamaður, mál sitt í opnu bréfi til bankans um hækkun verðtryggðra húsnæðisvaxta í kjölfar lækkunar stýrivaxta og þykir skökku skjóta við hvað viðbrögð viðskiptabanka hans við stýrivaxtalækkun áhrærir.
„Í mínum huga hafði Íslandsbanki alltaf ímynd „góða bankans“ ... en sú mynd hefur aðeins fölnað,“ skrifar Þórhallur enn fremur.
Kveðst hann hafa orðið hissa við vaxtahækkunina, sem kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum góða framan í marga, en miðstjórn ASÍ hefur jafnvel orðið til þess að fordæma hækkun Íslandsbanka. Grípum stuttlega niður:
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) fordæmir þá ákvörðun Íslandsbanka að hækka vexti á verðtryggðum lánum á sama tíma og verðbólga gengur niður og vonir vakna um að hagur almennings taki að batna. Þessi viðbrögð við löngu tímabærri lækkun stýrivaxta Seðlabankans jafngilda því að stjórnendur Íslandsbanka hafi kastað blautri og illa þefjandi tusku sinni beint í andlit landsmanna.
Illa þefjandi tuska er líking sem verður ekki mikið sterkari frá miðstjórn ASÍ. Þarna fylgir hugur máli. Þórhallur heldur áfram:
Þetta hljómar mjög mótsagnakennt og ég skil ekki þessa ákvörðun enda gerðu flestir sér vonir að lækkun stýrivaxta hefði jákvæð áhrif, ekki síst þau sem eru með verðtryggð lán. Þegar virðist birta til, svona rétt fyrir jólin, verðbólga fer lækkandi, verbólguvæntingar lækka, stýrivextir lækka og nánast enginn hagvöxtur þá bregðist þið við með því að herða tökin á fólki og hækka vexti á verðtryggðum lánum. Getið þið útskýrt fyrir mér sanngirnina í þessu og gert það á einfaldan og heiðarlegan hátt?
Bankinn hefur svarað Þórhalli, en svarið er hér birt í heild sinni:
Það hefur verið gríðarleg eftirspurn eftir verðtryggðum lánum síðasta árið. Á rúmu ári hefur verðbólguójöfnuður bankanna (verðtryggðar eignir umfram verðtryggðar skuldir) hækkað um 500 milljarða, úr 100 milljörðum í 600 milljarða.
Nú eru stýrivextir 8,5% og spár eru um að verðbólga næstu mánaða verði um 2%. Það þýðir að raunstýrivextir eru um 6,5%, sem er þá þeir vextir sem bankar þurfa að fjármagna verðtryggð lán að stórum hluta.
Breytilegir húsnæðislánavextir eru núna 5,0%, þ.a. næstu mánuði má ætla að við verðum með neikvæðan vaxtamun um 1,5% af þeim lánum. Við vonum svo að Seðlabankinn muni lækka stýrivexti myndarlega á næsta fundi þeirra í febrúar og verðtryggðir vextir lækki einnig hratt í kjölfarið.
Þetta segir Íslandsbanki. Þórhallur spjallaði örlítið við mbl.is og sagði meðal annars þar:
„Það er mikill pirringur yfir þessu. Eflaust hægt að rökstyðja hækkunina en fólk hefur ekki þolinmæði í flóknar útskýringar, búið að telja öllum trú um að stýrivaxtalækkun myndi leiða til eilífrar hamingju, að minnsta kosti lækkunar afborgana allra skulda.“
Þórhallur er ekki sáttur. Breki Karlsson hjá Neytendasamtökunum er það ekki heldur. Hann skrifaði á Vísi í gær:
Íslandsbanki byggir vaxtabreytingarnar á skilmálum lánasamninga sinna. Þar eru tilgreindar margvíslegar ástæður sem leyfa bankanum að hækka vexti, þar á meðal „ófyrirséður kostnaður“, sem bankinn hefur ótakmarkaða heimild til þess að velta yfir á neytendur. Nákvæmlega sama orðalag er á þessum skilmála bankans vegna lána með verðtryggðum breytilegum og? óverðtryggðum með breytilegum vöxtum.
Í ályktun ASÍ er sérstaklega bent á að hér hafi verið gerðir ábyrgir kjarasamningar og þá nýti fjármálastofnanir tækifærið og hækki verðtryggða vexti.
Miðstjórn ASÍ telur með öllu óásættanlegt að nú þegar launafólk hefur sýnt ábyrgð við gerð kjarasamninga og árangur er tekinn að sjást að fjármálastofnanir nýti tækifærið og hækki verðtryggða vexti með það að markmiði að viðhalda óeðlilegri arðsemi á fákeppnismarkaði. Nú þegar hefur almenningur þurft að horfa upp á bankana stinga lækkun bankaskatts í vasa eigenda frekar en að skila ábatanum til neytenda. Ósvífnin er fullkomnuð þegar bönkum er falið að innheimta ábata kjarasamninga í krafti einokunar.