Mesta áskorun lífsins

Pema Sherpa og Tómas Guðbjartsson á toppi Ama Dablam. Makalu, …
Pema Sherpa og Tómas Guðbjartsson á toppi Ama Dablam. Makalu, eitt hæsta fjall í heimi, í baksýn. Ljósmynd/Aðsend

Hjarta- og lungnaskurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson veitti um 70 til 80 manns ókeypis læknisþjónustu þegar hann var í hæðaraðlögun í krefjandi og hættulegum fjallgöngum í þriggja vikna ferð til Nepal á dögunum, þar sem hann kleif fjöllin Lobutche (6.112 m) og Ama Dablam (6.812 m) með heimamanninum Pema Sherpa.

Þá gaf hann heilsugæslustöðvum í Khumbu-dal skurðverkfæri og afganginn af lyfjunum, meðal annars hjarta- og sýklalyf, og færði Hamas-sjúkrahúsinu í Katmandú lífrænar og ólífrænar hjartalokur að gjöf fyrir fátæk börn og unglinga með meðfædda hjartagalla. „Þetta var erfið ferð og ég léttist um átta kíló, en mjög gefandi,“ segir hann.

Á öðrum degi fékk Tómas skæða iðrakveisu og háði hún honum á fyrri hluta ferðarinnar, en hann fékk síðan meðferð á fjögurra legurýma sjúkrahúsi í 4.400 m hæð í Dingbotche á leiðinni á tind Lobutche. „Ég hélt fyrst að þetta væri matareitrun en var greindur með slæma sýkingu, jafnvel salmonellu.“

Tómas hefur nú farið þrjú ár í röð í klifurferðir til Nepal og alltaf á þessum tíma. Í hvert skipti hefur hann sinnt lækningum, þegar hann hefur verið í hvíld í tehúsi frá göngu vegna hæðaraðlögunar. Lyfjaver hefur styrkt hann með lyfjum og auk þess hefur hann verið með nauðsynleg skurðverkfæri meðferðis. „Þegar ég var sem veikastur lá ég sjálfur í koju og gat ekki mikið gefið af mér í fjóra til fimm daga.“

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert