„Miklir möguleikar til úrbóta“

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Samsett mynd

Miklir möguleikar eru til úrbóta á ungbarnaleikskólanum Lundi, en starfsfólk skóla- og frístundasviðs hefur síðustu vikurnar farið í óundirbúnar heimsóknir og rætt við starfsfólk leikskólans, eftir að nokkrar ábendingar bárust um aðbúnað barnanna þar.

Svo virðist sem aðalnámskrá fyrir leikskóla og viðteknum venjum í leikskólastarfi í Reykjavík, hafi ekki verið nógu vel fylgt.

Þetta segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.

Komin með glögga mynd af starfseminni

Farið var í fyrstu eftirlitsferðina í byrjun nóvember og kom þá í ljós að ákveðin skilyrði voru ekki uppfyllt á leik­skól­an­um svo börn­in gætu notið sín í leik­skóla­starf­inu, fengið gott at­læti og rík tæki­færi til þroska. 

Þá var strax gerð krafa um að ráðist yrði í úr­bæt­ur á til­tekn­um þátt­um og hefur reglulega verið farið í heimsóknir til að kanna hvort verið sé að bregðast við því.

Helgi segir að þau telji sig nú vera komin með nokkuð glögga mynd af starfseminni og því hvort úrbætur séu að eiga sér stað.

Stjórnendur hafa rétt til andmæla

„Stefnt er á að funda með foreldrum og starfsfólki í næstu viku og gera grein fyrir því sem úttektir okkar leiddu í ljós. Við erum að fínisera nokkur atriði,“ segir hann. Þá sé stjórnendum gefið tækifæri til að bregðast við.

„Ef við höfum mögulega misskilið eitthvað eða tekið rangt eftir, þá gefum við stjórnendum tækifæri á að koma ábendingum til okkar þegar við erum búin að gera svona úttektir. Þannig andmæli séu virt.“

Börnum ekki hætta búin

Aðspurður segir Helgi að börnum sé ekki hætta búin á leikskólanum, þá hefði verið gripið mun hraðar inn í og skýrar.

„Við erum að safna gögnum um hvað við teljum að betur mætti fara í starfsemi leikskólans miðað við það sem er samkvæmt aðalnámskrá leikskóla og það sem er viðtekin venja í leikskólastarfi í Reykjavík.“

Því hafi ekki verið nógu vel fylgt á leikskólanum, að sögn Helga.

„Við teljum að það séu miklir möguleikar til úrbóta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert