Össur telur erindi Pírata í stjórnmálum lokið

Össur Skarp­héðins­son, fyrr­ver­andi formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, ger­ir að því skóna í pistli á Face­book að er­indi Pírata í ís­lensk­um stjórn­mál­um sé lokið og að at­kvæði til Pírata sé kastað á glæ.

„Hið sorg­lega við stöðu Pírata í dag er að mál­efna­lega skipta þau ekki leng­ur máli.“ Þá sé ber­sýni­legt valdatafl inn­an flokks­ins, sem sé í upp­námi að mati Öss­ur­ar.

Ekki telst þó ólík­legt að orð Öss­ur­ar bein­ist til kjós­enda Pírata í þeirri von að Sam­fylk­ing­in, sem mæl­ist í hæstu hæðum með um 20% fylgi á landsvísu, bæti enn meira fylgi við sig.

Ekk­ert hægri eft­ir í Pír­öt­um 

All­marg­ir Pírat­ar mót­mæla orðum Öss­ur­ar en það ger­ir þó ekki Ásta Guðrún Helga­dótt­ir, fyrr­um þingmaður Pírata. Hún seg­ist vera löngu kom­in á vagn Sam­fylk­ing­ar og seg­ir Pírata hafa færst langt til vinstri ef miðað er við ræt­ur flokks­ins sem snér­ust um net­frelsi og aðrar frels­is­hug­sjón­ir. Þá seg­ir hún Pírata hafa í grunn­inn verið hlynnta sósí­al­demó­kra­tískri hug­mynda­fræði þó að hann hafi í upp­hafi verið í ein­hvers kon­ar ung­linga­upp­reisn.

„Pírat­ar hafa hins veg­ar í seinni tíð verið að fær­ast æði mikið til vinstri og hafa sí­fellt í könn­un­um verið á svipuðum slóðum og Sam­fylk­ing­in og Viðreisn. Hægri­mennsk­an er löngu far­in úr Pír­öt­um, þó að það hafi kannski mátt segja að hún hafi lifað þar í ein­hver ár í upp­hafi,“ seg­ir Ásta. 

„Alltaf verið að hræra í grautn­um“ 

Björn Leví Gunn­ars­son, þingmaður Pírata, er ekki par hrif­inn af mál­flutn­ingi Öss­ur­ar og Guðrún­ar sem hann seg­ir lit­ast af póli­tísk­um hags­mun­um.

„Alltaf verið að hræra í grautn­um og jafn­vel bæta aðeins í hann," seg­ir Björn Leví og vís­ar orðum sín­um til Öss­ur­ar. Seg­ir hann Sam­fylk­ingu hafa skilið Pírata eina eft­ir sem mál­svara flótta­fólks. Eins tel­ur hann flokk­inn hafa sett spill­ing­ar­mál, skaðam­innk­un, gervi­greind, gagn­sæi og fleira á dag­skrá sem ekki hafi verið rætt áður. Því mót­mæl­ir hann meintu er­ind­is­leysi flokks­ins.

Hvað Ástu Guðrúnu varðar, seg­ir Björn Leví: „nei. Þó þú haf­ir verið þannig (aðhyllst sósí­al­demó­kra­tíska hug­mynda­fræði) þýðir ekki að aðrir hafi verið það,“ seg­ir Björn Leví.

Þræta þau áfram um hug­mynda­fræði og sak­ar Ásta Guðrún Björn Leví um að kann­ast ekki við ræt­ur eig­in flokks.

ADHD-deild Sam­fylk­ing­ar­inn­ar

Marg­ir tjá sig um mál­in og sitt sýn­ist hverj­um um orð Öss­ur­ar. Meðal annarra seg­ir Eva Hauks­dótt­ir, lögmaður og aðgerðarsinni í léttu komm­enti. „Pírat­ar eru bara ADHD deild Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert