Kjaraviðræður Læknafélags Íslands og samninganefndar ríkisins ganga vel. Samninganefndirnar funduðu í dag og munu hittast aftur í fyrramálið. Gert er ráð fyrir að fundurinn á morgun muni standa yfir fram á kvöld.
Þetta segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, í samtali við mbl.is.
Steinunn segir að nú snúist viðræðurnar fyrst og fremst um að koma betur til móts við ólíkar þarfir lækna þegar það kemur að styttingu vinnuvikunnar. Hún segir að læknar vinni ólíka vinnu og taka þurfi tillit til þess við gerð kjarasamninga.
„Það þarf að horfa á allt kjaraumhverfið okkar í þessu nýja samhengi betri vinnutíma. Læknar eru innbyrðis ólíkir: við erum með heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu, heimilislækna á landsbyggðinni, sjúkrahúslækna í þéttbýli og dreifbýli. Við erum með fólk sem vinnur á ólíkan hátt. Sumir eru mikið á vöktum og aðrir eiginlega bara í dagvinnu, þannig við erum að reyna búa til ramma svo að betri vinnutími henti fyrir alla þessa hópa.“
Verkfallsaðgerðir lækna sem starfa hjá hinu opinbera hefjast á miðnætti á sunnudagskvöld og munu standa yfir til 28. nóvember, verði ekki búið að semja fyrir þann tíma. Verkfallið nær til lækna sem starfa á Landspítalanum og á öðrum heilbrigðisstofnunum um allt land, ásamt heilsugæslustöðvum sem reknar eru af ríkinu.
Komi til verkfalls verður því háttað svo að frá miðnætti 25. nóvember og til hádegis sama dag verður lágmarksmönnun lækna, eins og er um helgar og á rauðum dögum, á þeim stofnunum sem verkfallsaðgerðir ná til. Frá hádegi verður mönnunin með hefðbundnum hætti.
Þetta fyrirkomulag verður til fimmtudagsins 28. nóvember.
Steinunn segir að allir þeir sem koma að samningsborðinu séu meðvitaðir um þessa dagsetningu og markmiðið sé að ná að semja áður en verkfallsaðgerðir eiga að hefjast.