Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurði yfir tveimur mönnum sem eru grunaðir um stórfellt fíkniefnalagabrot.
Málið tengist rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en þann 2. október lagði hún hald á 2.943,38 grömm af MDMA í kristalsformi sem fundust við leit í húsnæði í Kópavogi. Samkvæmt matsgerð rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði var styrkur MDMA í sýnum úr efnunum á bilinu 80 - 81%, sem samsvarar 95 - 96% af MDMA-klóríð.
Fram kemur, að lögreglan hafi skipt efnunum út fyrir gerviefni og sett litarefni á umbúðir. Í framhaldi hafði lögregla eftirlit með húsnæðinu.
Síðar sama dag komu þrír menn í húsnæðið og sóttu gerviefnin en samkvæmt mynd-og hljóðupptöku lögreglu lítur út fyrir að það hafi verið mennirnir tveir ásamt þriðja meinta samverkamanni. Fram kemur að tveir mannanna hafi verið með téð litarefni á höndunum við handtöku og þeir virðast því hafa farið höndum um umbúðirnar.
Jafnframt liggur fyrir að efnin voru í fórum tveggja manna þegar þeir voru handteknir stuttu eftir móttöku þeirra.
Þessu til viðbótar liggur fyrir tveir menn hafi verið með í fórum sínum 1.781 töflu af MDMA sem fundust við leit í bifreið sem þeir notuðu þegar þeir voru handteknir.
„Um er að ræða mikið magn sterkra og hættulegra fíkniefna og bendir því allt til þess að þau hafi átt að fara í sölu og dreifingu hér á landi. Allt framangreint styður málatilbúnað sóknaraðila um sterkan rökstuddan grun fyrir hinu meinta broti. Þá hefur varnaraðili við skýrslutökur hjá lögreglu ekki gefið neinar haldbærar skýringar á efnunum og ferðum sínum varðandi efnin,“ segir í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem Landsréttur hefur nú staðfest.
Mennirnir tveir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá 3. október og skulu þeir sæta áframhaldandi varðhaldi til 3. desember og er það gert að grundvelli almannahagsmuna.
Uppfært: Í upphaflegri frétt var fyrirsögnin að tveir væru grunaðir um fíkniefnalagabrot. Líkt og fram kemur í fréttinni er þó þriðji maðurinn líka tilgreindur sem mögulegur samverkamaður og hefur fyrirsögnin verið löguð samkvæmt því.