This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Viðreisn mælist nú með mesta fylgið þegar aðeins átta dagar eru til kosninga. Samfylkingin tapar miklu fylgi á milli vikna og Framsókn mælist út af þingi.
Þetta kemur fram í nýrri könnun Prósents sem er unnin fyrir Morgunblaðið og var kynnt fyrir skömmu í Spursmálum.
Viðreisn mælist með 22% sem er á pari við það sem flokkurinn mældist með fyrir viku síðan.
Samfylkingin tapar hins vegar 4,1 prósentustigi á milli vikna og mælist nú með 18,3% fylgi. Fylgismunurinn á flokkunum er þó áfram innan skekkjumarka.
Gömul skrif Þórðar Snæs Júlíussonar á blogginu „Þessar elskur“, sem haldið var uppi af honum og félögum á árunum 2004-2007, voru dregin fram í þætti Spursmála á mbl.is á þriðjudag í síðustu viku.
Í kjölfarið tilkynnti hann að hann myndi ekki þiggja þingsæti ef hann yrði kjörinn.
Miðflokkurinn mælist með 13,5% fylgi en fyrir viku síðan mældist flokkurinn með 15,5% fylgi og tapar því tveimur prósentustigum.
Flokkur fólksins sækir í sig veðrið á milli vikna og mælist nú með 12,5% fylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með álíka mikið fylgi og fyrir viku síðan og mælist með 11,5% fylgi.
Athygli vekur að Píratar taka mikið stökk á milli vikna og flokkurinn mælist nú með 6,7% fylgi eftir að hafa mælst með 3,4% fylgi fyrir viku síðan. Sósíalistaflokkurinn mælist með 6,4% fylgi og næði einnig inn á þing.
Stjórnarflokkarnir Framsókn og Vinstri græn mælast hvorugir inn á þingi. Framsókn mælist með 4,4% fylgi og Vinstri græn mælast með 3% fylgi.
Lýðræðisflokkurinn mælist með 1% fylgi.