Viðræður ekkert þokast frá því á þriðjudag

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir enga …
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir enga samstöðu enn hafa náðst um aðferðafræði. Samsett mynd

Ekkert hefur þokast í viðræðum í kjaradeilu kennara frá því samningafundir hófust aftur á þriðjudag, eftir sautján daga hlé. Staðan er í raun nákvæmlega sú sama og þegar samninganefndir kennara, ríkis og sveitarfélaga settust niður á þriðjudagsmorgun.

Enn hefur ekki náðst samstaða um hvaða aðferðafræði á að vinna eftir, þrátt fyrir að það hafi verið forsenda fyrir því að hægt var að boða til samningafundar á þriðjudag, að báðir deiluaðilar samþykktu að prófa nýjar aðferðir. 

Þetta segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, í samtali við mbl.is. Mikið hafi verið reynt, en lítið þokist. Boðað hefur verið til nýs fundar klukkan 13 í dag.

„Við verðum bara að sjá til. Við ætlum að hittast í dag og ef menn hafa fengið nýjar hugmyndir, þá væri það jákvætt inn í samtalið. Menn hafa líka haft tækifæri til að meta stöðuna á milli funda. Við vonum að það skili einhverju,“ segir Inga.

Til stóð að prófa nýjar aðferðir

Líkt og áður hefur verið greint frá gera kennarar kröfu um að samkomulag sem gert var árið 2016 verði efnt. Sem snýr að því að grunn­launa­setn­ing sér­fræðinga í fræðslu­geir­an­um og annarra sér­fræðinga á op­in­ber­um markaði verði jafn­sett laun­um á al­menn­um markaði. Í því samhengi hafa kennarar gert kröfu um að fundnir verði viðmiðunarhópar á almennum markaði til að miða laun þeirra við.

Ríkissáttasemjari sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að það væri fullreynt að finna slíka viðmiðunarhópa. Og að forsenda fyrir því að hægt var að boða til formlegs samningafundar á þriðjudag var að báðir deiluaðilar samþykktu að prófa nýja aðferðafræði.

Beina þá sjónum að öðrum atriðum og setja kröfuna um viðmiðunarhópa aðeins til hliðar, án þess þó að ýta henni út af borðinu.

Fræðsla um virðismat starfa ekki skilað árangri?

„En þessi stóri fleinn sem stend­ur á milli aðilana, að því er varðar jöfn­un launa á milli markaða, hef­ur tafið okk­ur frá því að kom­ast í al­vöru vinnu og það er það sem við erum að reyna að finna leiðir til að nálg­ast,“ sagði Ástráður meðal annars.

Það hefur hins vegar ekki skilað árangri síðustu daga, að sögn Ingu. Engin samstaða hafi náðst um hvaða aðferðafræði eigi að vinna eftir. Því sé samtalið enn á byrjunarnreit.

Samninganefndir hafa meðal annars fengið fræðslu frá sérfræðingum Jafnlaunastofu um virðismat starfa, en sú fræðsla virðist ekki hafa skilað tilætluðum árangri, ef marka má stöðuna í viðræðunum í dag.

Frekari aðgerðir boðaðar í janúar

Verkfallsaðgerðir hafa staðið yfir frá 29. október, í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum. Kennarar í níu skólum hófu aðgerðir í upphafi en á mánudaginn bættist einn framhaldsskóli við. Í dag lýkur verkföllum í þremur grunnskólum en á mánudag bætast aðrir þrír grunnskólar við. 

Verkföll í leikskólum eru ótímabundin en verkföll á öðrum skólastigum eru tímabundin og standa til 20. desember, náist samningar ekki fyrir þann tíma. Þann 6. janúar hafa svo verið boðaðar verkfallsaðgerðir í fjórum grunnskólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert