Andlát: Baldur Óskarsson

Baldur Óskarsson, framkvæmdastjóri og kennari, lést á Hrafnistu 18. nóvember síðastliðinn, 83 ára að aldri.

Baldur fæddist 26. desember árið 1940 í Vík í Mýrdal þar sem hann ólst upp. Foreldrar hans voru hjónin Óskar Jónsson, þingmaður og starfsmaður Kaupfélags Skaftfellinga, og Katrín Ingibergsdóttir húsmóðir.

Baldur hneigðist fljótt að stjórnmálum og varð ungur forystumaður Sambands ungra framsóknarmanna og erindreki Framsóknarflokksins. Síðar lá leið hans í Möðruvallahreyfinguna sem stofnuð var 1973 og skrifaði hann samnefnda bók um hreyfinguna. Hann varð síðar framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins og sat sem þingmaður á Alþingi fyrir flokkinn um tíma.

Baldur starfaði einnig fyrir verkalýðshreyfinguna og var fræðslustjóri Menningar- og fræðslusambands alþýðu (MFA). Um ævina skrifaði hann fjölda greina í blöð og tímarit.

Baldur lauk námi í Samvinnuskólanum á Bifröst rúmlega tvítugur og seinna prófi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, þá kominn á miðjan aldur. Hann var framkvæmdastjóri Sambands íslenskra bankamanna á tíunda áratugnum. Síðar varð hann kennari í Iðnskólanum í Reykjavík og Tækniskólanum, á árunum 1999 til 2010.

Baldur var mikill félagsmálafrömuður, stofnaði til og stjórnaði fjölda námskeiða til fróðleiks, sjálfsstyrkingar og skemmtunar. Hann byrjaði ungur að spila á hljóðfæri, söng í Karlakór Reykjavíkur um árabil og í Óperukórnum. Hann var mikill hestamaður og naut þess að spila brids.

Eiginkona Baldurs var Hrafnhildur Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur og leikari, þau skildu. Dætur þeirra eru Katrín Baldursdóttir blaðamaður, Ljósbrá Baldursdóttir forstjóri og Eva Baldursdóttir lögfræðingur. Eftirlifandi sambýliskona Baldurs er Anna K. Jónsdóttir lyfjafræðingur. Börn hennar eru Herdís Anna Þorvaldsdóttir, Gunnlaug Þorvaldsdóttir, Jón Þórarinn Þorvaldsson og Hannes Þórður Þorvaldsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert