Eins og ef „Kjörbúðin á Blönduósi færi í verkfall“

Dýrleif segir marga nemendur FSu upplifa að þeir hafi gleymst …
Dýrleif segir marga nemendur FSu upplifa að þeir hafi gleymst og skipti engu máli. Samsett mynd

Verkföll kennara í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi munu væntanlega koma í veg fyrir að útskriftarnemendur geti hafið háskólanám í byrjun næsta árs. Þá raska verkföll áformum einhverra um lýðháskóla í útlöndum. Þetta segir Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir, formaður Nemendafélags FSu.

Verkfallið hefur sett lífið úr skorðum hjá nemendum sem margir eru orðnir langþreyttir á aðgerðarleysi eftir tæpar fjórar vikur án kennslu. Sjálf segist Dýrleif hafa átt erfitt með að halda rútínu og hún viti varla vita hvaða dagur er. 

Verkfallið setur einnig strik í reikninginn hjá þeim nemendum sem búa á heimavistinni og fá greiddan jöfnunarstyrk frá sveitarfélaginu upp í leiguna, þar sem styrkurinn er háður námsárangri.

Óvissan óþægileg fyrir marga

Kennarar í FSu hafa verið í verkfalli frá 29. október og stendur það til 20. desember, náist samningar ekki fyrir þann tíma. Er FSu einu framhaldsskólinn þar sem verkfallsaðgerðir standa svo lengi, en kennarar í Menntaskólanum í Reykjavík hófu verkföll 18. nóvember.

Dýrleif segir óvissuna með framhaldið óþægilega fyrir marga.

„Það er rosa mikil óvissa, við vitum ekki neitt og við fáum engar upplýsingar. Sömuleiðis vita skólastjórnendur hjá okkur ekki neitt. Við fréttum í raun bara eitthvað úr fjölmiðlum,“ segir Dýrleif í samtali við mbl.is.

„Ég held að við séum öll frekar ósátt með þessa aðferð að velja einn skóla umfram aðra. Ég hef líkt þessu við að ef verslanir færu í verkfall, að Kjörbúðin á Blönduósi færi í verkfall til að leysa kjaradeiluna hjá þeim. Ég hugsa að það myndi ekki hafa áhrif.“

Plön margra farin í vaskinn

Á milli 30 og 40 nemendur eru í útskriftarhóp og stefndu á útskrift um jólin, en Dýrleif gerir ráð fyrir að útskrift verði frestað fram í janúar eða febrúar.

„Einhverjir af þeim ætluðu í Lýðháskóla eða byrja strax í háskóla eftir áramót en það er alveg farið í vaskinn,“ segir hún.

„Það eru líka margir þriðja árs nemar eins og ég sem vilja nýta síðustu önnina í að taka því frekar rólega. Hafa kósý önn. Það er leiðinlegt að þurfa að þjappa því öllu saman. Ég er sjálf að velja áfanga á næstu önn sem áttu að nýtast mér fyrir að sækja um í háskóla, en ég veit ekki hvernig það fer.“

Umsóknarfrestur fyrir námið sem hún stefnir á rennur út í apríl en miðað við stöðuna gerir hún ráð fyrir að önnin verði rétt svo hálfnuð á þeim tíma, þannig verkefnin nýtast væntanlega ekki fyrir umsóknina.

Héldu stærsta viðburðinn í miðju verkfalli

Skólahúsnæði FSu hefur verið opið í verkfallinu; bókasafnið, skrifstofan og mötuneytið og segist Dýrleif vita til þess að margir séu duglegir að mæta út í skóla í hádeginu, borða þar og jafnvel spila saman borðtennis.

„Við í nemendaráði ákváðum líka að við ætluðum ekki að hætta okkar starfi. Við héldum til dæmis söngkeppnina okkar, sem er undankeppni fyrir Söngkeppni framhaldsskólann, og er okkar stærsti viðburður. Þannig það er svolítið leiðinlegt að það hafi lent í miðju verkfalli of áhorfendatölur lækkuðu töluvert frá síðustu árum.“

Einnig hafa bíókvöld verið haldin og til stendur að halda jólakvöldvöku í byrjun desember.

Hún segir einhverja hafa ætlað sér að reyna að vinna í verkfallinu en það hafi ekki tekist hjá öllum. Mörgum sé því farið að leiðast verulega. „Þau hafa bókstaflega ekkert að gera.“

Sjálf segist Dýrleif varla gera sér grein fyrir því hvaða dagur er.

„Við höfum verið hvött til að reyna að halda rútínu, en ég veit alveg um fleiri en mig sem finnst það erfitt. Maður hefur ekki mikið að gera.“

Upplifa að þau skipti ekki máli

Dýrleif segir marga nemendur hafa upplifað að FSu hafi svolítið gleymst í umræðunni þar sem þau voru eini framhaldsskólinn þar sem kennarar fóru í verkfall strax í upphafi aðgerða, þann 29. október. Kennarar í Menntaskólanum í Reykjavík bættust svo við 18. nóvember.

„Maður tók strax eftir því þegar umræðan um MR varð meiri þá eru fleiri farnir að pæla í þessu, sem er bara flott, en samt leiðinlegt að það hafi ekki gerst fyrr.“

Nemendur hafi upplifað að öllum stæði á sama um þá og þeir skiptu minna máli en nemendur í öðrum skólum.

„Eins og öllum væri smá sama um okkur af því við erum úti á landi. Fólk sem ég þekki í bænum vissi ekki einu sinni að FSu væri í verkfalli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert