Örlög fyrirhugaðrar mölunarverksmiðju Heidelberg við Keflavík í Þorlákshöfn verða ráðin í bindandi atkvæðagreiðslu íbúa í Ölfusi sem hefst á mánudaginn og stendur yfir til 9. desember. Fjölmennur íbúafundur vegna verksmiðjunnar var haldinn í Ráðhúsi Ölfuss í fyrrakvöld.
Verkefnið er umdeilt, sérstaklega af hálfu fyrirtækisins First Water sem hefur lýst áhyggjum af áhrifum verksmiðjunnar sem fari ekki saman við matvælaframleiðslu á borð við laxeldi í nágrenninu. Verksmiðjan og bygging hafnar geti m.a. haft neikvæð áhrif á starfsemi First Water, sem er að byggja laxeldi á landi við Laxabraut, sömu götu og starfsemi Heidelberg á að fara fram við. Var íbúakosningu sem halda átti í maí sl. frestað vegna gagnrýninnar og ákveðið að afla frekari gagna.
Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss segir að fundurinn hafi farið vel fram og á heildina litið hafi farið fram heilbrigð og skynsöm skoðanaskipti og framsögufólk verið upplýsandi. „Stóra erindið var að svara þeim varhug sem reistur var á vordögum varðandi rykmengun, hljóðmengun og titring,“ segir Elliði.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.