Kennarasamband Íslands (KÍ) segir það vera „rannsóknarefni“ hvernig formaður samninganefndar sveitarfélaganna hafi „hugmyndaflug“ til að tjá sig með þeim hætti sem hann gerir. Enn fremur segir KÍ að sveitarfélögunum séu „nokk sama um kennara“.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef KÍ.
KÍ sendi í gær erindi á fjóra bæjarstjóra þess efnis að sambandið væri til í að aflýsa verkföllum í fjórum leikskólum gegn því viðkomandi sveitarfélög myndu greiða laun þeirra kennara sem hefðu verið í verkfalli síðustu fjórar vikur.
„Það er ljóst að með þessari framgöngu er Kennarasambandið að sýna dýrmætum rétti launafólks til að leggja niður störf til að ná fram kröfum sínum alvarlega lítilsvirðingu. Verkföllum er beitt í þeim tilgangi að ná fram kröfum félagsmanna og félaganna um launabætur en þarna er verið að nota þetta í auðgunarskyni fyrir félagið,“ sagði Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, í samtali við RÚV í dag.
Benti hún þar að auki á að það væri hlutverk verkfallssjóðs kennara að greiða niður laun félagsmanna í verkföllum.
KÍ hefur svarað þessum ummælum með tilkynningu á vef sínum þar sem segir:
„Að formaður samninganefndar sveitarfélaga, sem talar fyrir hönd allra sveitarfélaga í landinu, hafi hugmyndaflug til að tjá sig með þessum hætti er rannsóknarefni.“
KÍ hafnar því að tillagan snúist um fjármuni og segir að viðræðunefndin sé í góðum og stöðugum samskiptum við sitt félagsfólk. Skömmin sé komin til sveitarfélaganna.
„Laun kennara í verkfalli er kostnaður sem sveitarfélögin hefðu hvort eð er þurft að greiða væru þeir við störf. Það er í raun galið að félagsfólk KÍ hafi þurft að fara í verkfall til að þrýsta á að undirritað samkomulag frá árinu 2016 verði efnt. Ákvarðanatakan er komin þangað sem hún á heima, eða til þessara fjögurra sveitarfélaga. Við höfum svo sem séð í þessari kjaradeilu að sveitarfélögunum er nokk sama um kennara. Nú mun koma í ljós hvort það sama eigi við um foreldra og börn,“ segir í tilkynningunni.