Segir sig úr Viðreisn: „Komið illa fram við mig“

Jasmina er búin að ákveða hvað hún ætlar að kjósa.
Jasmina er búin að ákveða hvað hún ætlar að kjósa. Ljósmynd/Aðsend

Jasmina Vajzovic Crnac, ein af stofnendum Viðreisnar í Reykjanesbæ, hefur sagt sig úr Viðreisn en hún segir flokkinn hafa komið illa fram við sig með því að bjóða henni ekki sæti á lista. 

Hún sóttist eftir því að leiða listann í Suðurkjördæmi í komandi þingkosningum en segir að henni hafi ekki verið boðið neitt sæti á lista.

„Mér finnst það sárasta við þetta allt saman það að Viðreisn getur komið svona fram við einstakling sem þau þekkja, sem er búinn að vinna fyrir þau, sem þau vita hvað ég stend fyrir. Sem er ekki fallegt, mér finnst komið illa fram við mig. Þegar þau geta gert það, þá geta þau auðveldlega líka svikið þjóðina. Þannig ég treysti þeim ekki út af því,“ segir hún í samtali við mbl.is en Vísir greindi fyrst frá.

„Ekkert pláss“ fyrir hana

Jasmina var bæjarfulltrúi fyrir Frjálst afl fyrir nokkrum árum í Reykjanesbæ og árið 2018 kom hún að stofnun Viðreisnar í Reykjanesbæ. Hún kveðst hafa sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Viðreisn og hefur meðal annars setið í stjórn Viðreisnar á landsvísu.

Hún sóttist eftir því að leiða lista Viðreisnar fyrir komandi kosningar. 

„Í raun og veru þá er sagt við mig að það sé svo mikið af fólki sem sækist eftir sætum, sem er ósköp eðlilegt, og mér er sagt að þau þurfi að passa upp á breiddina og það væri ekkert pláss fyrir mig,“ segir hún.

Brá við að sjá listann

Jasmina hefur mikið rætt um málefni innflytjenda og flóttamanna en hún kom sjálf til landsins sem flóttamaður. Hún er sannfærð um að hún myndi höfða til innflytjenda jafnt sem innfæddra en segir framboðslista Viðreisnar í Suðurkjördæmi vera einsleitan.

„Þegar ég sá nöfnin á listanum þá brá mér því það er enginn manneskja í Suðurkjördæmi af erlendum uppruna,“ segir hún.

Hún segir að henni hafi ekki verið boðið sæti neðar á listanum.

Hefði viljað sæti neðar á listanum

Hún tekur fram að hún sé ekki í fýlu vegna þess að henni hafi ekki verið boðið oddvitasætið en segir að henni hefði þótt eðlilegt að fá boð um sæti neðar á listanum.

„Mér var bara sagt að mínum kröftum væri ekki óskað á lista, ég átti bara að finna mér eitthvað annað að gera,“ segir hún.

Jasmina er búinn að ákveða hvað hún ætlar að kjósa en ætlar að halda því út af fyrir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert