Tilbúin að bregðast við skelli slæm sviðsmynd á

Runólfur Þórhallson segir almannavarnir nú vera að fara yfir plön …
Runólfur Þórhallson segir almannavarnir nú vera að fara yfir plön til að vera tilbúin til að bregðast við ef sviðsmynd breytist. mbl.is/Árni Sæberg

„Við, ásamt lögreglustjóranum á Suðurnesjum, erum bara að fara yfir plön. Við þekkjum þessa sviðsmynd frá því í febrúar þegar Njarðvíkuræðin klofnaði,“ segir Runólfur Þórhallsson, settur sviðsstjóri almannavarna.

Greint hefur verið frá að hraunstraumar sem renna til vesturs frá eldgosinu við Sundhnúksgíga valdi álagi á varnargarða og er staðan viðkvæm hvað varðar möguleg áhrif á innviði í og við Svartsengi.

Þá þurfi íbúar á Suðurnesjum að vera undir það búnir að eldgosið muni hafa áhrif á afhendingu á heitu vatni og hafa HS Veitur og HS Orka hvatt notendur til að fara sparlega með vatnið og gæta þess að halda varma inni í húsum.

Ekkert bendi til að sviðsmyndin endurtaki sig

Nefnir Runólfur að ekkert bendi til þess einmitt núna að sviðsmyndin frá því í febrúar endurtaki sig en segir hann þó almannavarnir taka undir skilaboð HS Veitna.

Hann segir almannavarnir nú vera að fara yfir plön.

„[...] og vera tilbúin til að bregðast við ef að þessi slæma sviðsmynd skellur á aftur.“

Unnið að undirbúningi hraunkælingar

Í tilkynningu HS Veitna segir að hraungarðurinn hafi hækkað og náð hæð varnargarðanna á köflum.

Segir Runólfur að unnið hafi verið í gær og í dag við undirbúning hraunkælingar og einnig að því að verja hluta Njarðvíkuræðarinnar sem liggur innan varnargarðanna.

Um viðkvæma stöðu að ræða

Þá sé stefnt á að hækka varnargarðinn.

„Það er búið að vera að vinna í dag við að hækka varnargarðinn og það er stefnt að því að hækka hann um einhverja metra,“ segir Runólfur en bætir við að vegna stöðugs hraunflæðis sé um viðkvæma stöðu að ræða.

Þá minnir hann á að margt fólk vinni nú við mjög erfiðar og hættulegar aðstæður við að verja innviðina.

Runólfur Þórhallsson, settur sviðsstjóri almannavarna.
Runólfur Þórhallsson, settur sviðsstjóri almannavarna. mbl.is/Hallur Már
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert