„Verulegur framgangur“ og fjölmiðlabann í deilunni

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari. Morgunblaðið/Eggert

„Verulegur framgangur“ hefur orðið í kjaraviðræðum kennara og ríkis og sveitarfélaga. Deiluaðilar hafa komið sér saman um viðræðugrundvöll og verður fundað aftur á morgun. Þá hefur verið óskað eftir því að deiluaðilar tjái sig ekki við fjölmiðla.

Þetta segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.

Samninganefndirnar funduðu í dag og að sögn Ástráðs fer þeim fundi brátt að ljúka og hefur annar fundur verið boðaður á morgun.

„Það verða vinnufundir í fyrramálið og síðan verða samninganefndirnar boðaðar í hús klukkan 12.“

Búið að koma sér saman um viðræðugrundvöll

Hann segir fund dagsins hafa að mörgu leyti gengið ágætlega.

„Að því er varðar kennarana þá hefur orðið verulegur framgangur í því þannig að við erum núna búin að koma okkur saman um svona viðræðugrundvöll sem að við ætlum að hefja vinnu við á morgun.“

Deiluaðilar komnir í fjölmiðlabann

Segir ríkissáttasemjarinn að hann hafi óskað eftir því við deiluaðila að þeir tjái sig ekki við fjölmiðla á meðan.

„Þannig að það verði friður á meðan við erum að reyna að vinna að útfærslu á þessari leið sem við erum að feta okkur inn á.“

Hefst það á morgun eða núna um leið og fundi kennara lýkur í dag?

„Þú meinar þetta fjölmiðlabann?“

Já.

„Það er byrjað.“

Sammæli um ákveðinn ramma

Segir Ástráður að það hafi nú orðið sammæli um ákveðinn ramma sem unnið verður í.

„Þar með er hægt að skipuleggja betur hvernig maður vinnur að því. En það er auðvitað þannig að ekkert er búið fyrr en allt er búið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert