„Við erum ennþá í fullum gangi“

Kjaraviðræður Læknafélags Íslands og samninganefndar ríkisins eru í fullum gangi …
Kjaraviðræður Læknafélags Íslands og samninganefndar ríkisins eru í fullum gangi að sögn ríkissáttasemjara. Samsett mynd

Læknafélag Íslands og samninganefnd ríkisins funda enn og segir ríkissáttasemjari að unnið sé að því að ganga frá tæknilegri útfærslu kjarasamnings.

Verkfallsaðgerðir lækna sem starfa hjá hinu opinbera hefjast á miðnætti á sunnudagskvöld og munu standa yfir til 28. nóvember, verði ekki búið að semja fyrir þann tíma.

Nær verkfallið til lækna sem starfa á Landspítalanum og á öðrum heilbrigðisstofnunum um allt land, ásamt heilsugæslustöðvum sem reknar eru af ríkinu.

Fundur enn í gangi

Í samtali við mbl.is segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari að fundur lækna standi enn yfir.

„Við erum enn þá í fullum gangi við að ganga frá tæknilegri útfærslu kjarasamnings,“ segir Ástráður.

Markmiðið að semja áður en aðgerðir hefjast

Komi til verkfalls verður því háttað svo að frá miðnætti 25. nóvember og til hádegis sama dag verður lágmarksmönnun lækna, eins og er um helgar og á rauðum dögum, á þeim stofnunum sem verkfallsaðgerðir ná til. Frá hádegi verður mönnunin með hefðbundnum hætti.

Þetta fyrirkomulag verður til fimmtudagsins 28. nóvember.

Í viðtali við mbl.is í gærkvöldi sagði Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, að allir þeir sem kæmu að samningsborðinu væru meðvitaðir um dagsetninguna og markmiðið væri að ná að semja áður en verkfallsaðgerðir eiga að hefjast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert