„Við munum ekki hvílast fyrr en þetta klárast“

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands, segir að kjarviðræður hafi gengið …
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands, segir að kjarviðræður hafi gengið vel í dag. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi/Colourbox

„Maður þorir aldrei að vera með stórar yfirlýsingar en ég myndi nú halda að við séum allavega ekki fjarri landi í dag en við höfum verið,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, um fund læknafélagsins við samninganefnd ríkisins í dag.

Fundurinn er enn í gangi en segir formaðurinn að gengið hafi vel og telur hún að það sé jákvæðari tónn í dag en hefur áður verið í kjaraviðræðunum.

„Þannig að það er svona ákveðin hreyfing með öllum fyrirvörum.“

Ekki rekist á stórar hindranir enn þá

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði ríkissáttasemjari að aðilar væru í fullum gangi við að ganga frá tæknilegri útfærslu kjarasamninga og segir Steinunn það passa.

„Við erum að horfa á svona útfærslur fyrir mismunandi hópa lækna og við erum komin svolítið áleiðis í þeirri vinnu. Við komumst áleiðis með það í dag og höfum allavega ekki rekið okkur á stórar hindranir enn þá.“

Þá verður fundað aftur á morgun og segir Steinunn þau halda ótrauð áfram fyrramálið.

„Við munum ekki hvílast fyrr en þetta klárast.“

Dagurinn verið uppbyggilegur

Aðspurð hvort hún sé bjartsýn á að samningar náist fyrir upphaf verkfalla í ljósi þess hve vel gangi, segir Steinunn að erfitt sé að segja til um það, en verkfallsaðgerðir hefjast að öllu óbreyttu á sunnudagskvöld.

„En eins og ég segi þá vitum við af þessu. Þetta nálgast óðfluga þannig að við munum bara vera hér um helgina,“ segir formaðurinn og heldur áfram.

„Það eru auðvitað allir fyrirvarar á niðurstöðu áður en verkföll hefjast en dagurinn í dag hefur verið uppbyggilegur og ég held að hljóðið sé bara nokkuð gott.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert