„Virkni í nótt var nokkuð stöðug framan að, en klukkan 5 í morgun dró úr gosóróa og samhliða því minnkaði sjáanleg virkni í miðgígnum, þeim gíg sem hefur verið virkastur hingað til.“
Svo segir í tilkynningu frá náttúruvárvakt Veðurstofu Íslands.
Enn eru þó þrír gígar virkir, sá syðsti hefur verið minnstur undanfarna daga en virkni í honum, sem og í nyrsta gígnum, virðist vera nokkuð stöðug áfram.
Miðgígurinn hefur verið að fæða hrauntröð meðfram Stóra Skógfelli og áfram meðfram varnargörðum við Svartsengi og Bláa lónið, því ætti minnkandi virkni í honum að skila sér í minna hraunflæði að varnargörðunum á því svæði.
Gasmengun (SO2) hefur verið að mælast í Grindavík í nótt og í morgun.
„Við bendum fólki á svæðinu að fylgjast með loftgæðamælingum í rauntíma á vefsíðu Umhverfisstofnunar loftgaedi.is, en þar er einnig að finna upplýsingar um viðbrögð við gasmengun af völdum eldgosa.“