„Staðan er svo sem búin að vera nokkuð stöðug í dag. Það var aðallega bara að það varð frekar hröð breyting snemma í morgun þar sem gosóróinn lækkaði snögglega og samhliða því var sjáanlegur munur á virkni í miðjugígnum,“ segir Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um stöðuna á eldgosinu á Reykjanesskaga.
Segir hún að virknin hafi haldist mjög lítil. Í gær hafi verið miðjusvæði að gjósa á sprungu en virðist nú sem það hafi dregist saman í einn eða tvo litla gíga.
„Það er talsvert minni framleiðsla þaðan og það var sá gígur sem var að fæða hrauntröðina sem flæddi svo meðfram varnargörðum Svartsengis og Bláa lónsins.“
Þó er enn heilmikið af hrauni í kringum þann gíg og flæðir það enn meðfram varnargörðunum þó að það flæði hægar og sé í minna magni.
„Það tekur hraun mjög langan tíma að storkna og kólna þannig að það mun bara halda áfram þó að hraunflæði hætti úr gígnum. Þannig að það er ennþá verið að vinna við varnargarða og ennþá hraun sem hækkar við þá.“
Eldvirkni á Reykjanesskaga - Málefni
Segir Jóhanna að enn gjósi úr þremur gígum en að syðsti gígurinn sé með langminnstu virknina.
„Það er bara eins og hefur verið undanfarna daga. Hann er enn þá virkur en það er mjög, mjög lítil virkni í honum.“
Þá sé nyrsti gígurinn með mjög svipaða virkni og hann hefur verið með síðustu tvo sólarhringa og ekki dregið úr henni.
Aðspurð segir hún viðvarandi gasmengun hafa verið í Grindavík í dag og á gossvæðinu en tekur fram að þeir sem séu að störfum á svæðinu séu með gasmæla á sér.
Þá sé spáin þannig að það verður hægur vindur á morgun þannig að gasið safnast aðallega fyrir í kringum gosstöðvarnar en mun ekki berast langt.
„Svo hins vegar á þriðjudag og miðvikudag verður suðvestan átt þannig þá gæti gas borist yfir höfuðborgarsvæðið og víðar en það er smá í framtíðinni þannig við sjáum hvernig það þróast.“