Frá og með 1. desember verður ekki veitt læknisþjónusta heimilislækna á Akureyri á vegum heilsugæslunnar Urðarhvarfi í Kópavogi.
Þessu greinir Heilsuvernd, sem rekur heilsugæsluna í Urðarhvarfi, frá á Facebook en Akureyri.net greindi fyrst frá.
Málið varðar heimilislæknana Val Helga og Guðrúnu Dóru sem störfuðu lengi á heilsugæslustöð Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Akureyri. Þau réðu sig svo fyrir nokkrum mánuðum til starfa hjá heilsugæslunni í Urðarhvarfi en höfðu aðstöðu á Læknastofum Akureyrar.
Skorað var á Sjúkratryggingar Íslands að semja um læknisþjónustu við Guðrúnu og Val með undirskriftarlista á vegum skjólstæðinga. Ríflega 800 manns skrifuðu undir.
„Það er mjög miður, en við höfum um margra mánaða skeið beðið eftir svörum frá Sjúkratryggingum Íslands, án árangurs og við teljum það nú fullreynt,“ segir í færslu Heilsuverndar.
„Við höfum horft á Akureyri sem sel og útstöð frá Urðarhvarfi þar sem komið sé til móts við skráða skjólstæðinga. Þá höfum við einnig sagt að komi til þess að það verði boðinn út rekstur einkarekinnar heilsugæslustöðvar á Akureyri munum við að sjálfsögðu sækjast eftir því.“
Í færslunni segir að um þúsund einstaklingar sem eru búsettir fyrir norðan séu skráðir í Urðarhvarfi.
„Við höfum leitast eftir því að leysa þjónustu við þá með sem bestum hætti.“
Í ágúst var opnað fyrir heimavitjanir á Akureyri með vitjanabíl læknis. Læknar hafa einnig hitt skjólstæðinga á Læknastofum Akureyrar án vandkvæða með leyfi til rekstarar frá landlækni undir formerkjum Heilsuverndar. Þá hefur Heilsugæslan haft möguleika á myndsamtölum með sérstakri heimild.
„Þetta hefur þó verið flókið og óhentugra heldur en undir hatti heilsugæslunnar, líkt og leitast var eftir. Skjólstæðingar hafa verið ánægðir með þjónustuna, en fyrst og fremst með þann möguleika að geta fylgt sínum lækni. Okkur hefur þótt þetta vera gott leiðarljós. Við höfum þó óneitanlega fundið fyrir talsverðum mótvindi. “
Segir að illa hafi gengið að fá svör frá SÍ um viðbótarsamning og að nú sé þolinmæði á þrotum.
„Starfsfólk okkar hefur gert sitt besta til að tryggja skjólstæðingum okkar bestu mögulegu þjónustu undir þessum kringumstæðum, komið er að leiðarlokum. Með hagsmuni skjólstæðinga og læknanna sjálfra höfum því ákveðið í sameiningu að loka þessari þjónustu.“
Læknarnir munu þó áfram starfa á Akureyri, en ekki á vegum Heilsuverndar.