Skoraði á Guðlaug að fara í borgarmálin

Guðlaugur og Þorbjörg tókust á í hlaðvarpinu um hin ýmsu …
Guðlaugur og Þorbjörg tókust á í hlaðvarpinu um hin ýmsu mál. Samsett mynd

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík norður, hefur skorað á Guðlaug Þór Þórðarson, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður, að bjóða sig fram „til borgarstjóra“ þar sem hann tjáir sig svo mikið um málefni Reykjavíkur. 

Guðlaugur svaraði áskoruninni á þann veg að það væri undarlegt að þingmaður Reykvíkinga mætti ekki tala fyrir hagsmunum eigin umbjóðenda án þess að fá áskorun um að bjóða sig fram í borgarmálin. 

Þetta kemur fram í Grjótkastinu, hlaðvarpi sem Björn Ingi á Viljanum heldur úti. 

Skora á hann opinberlega“

„Ég hef alveg lúmskt gaman af því hvað Gulli hefur miklar skoðanir á Reykjavíkurborg, því þá finnur maður að þarna er eldur í honum.“

Björn Ingi velti þá upp þeirri pælingu hvort að Guðlaugur myndi bjóða sig sjálfur fram í borgarmálunum.

„Að þú skulir segja þetta, því ég ætlaði nefnilega að vera fyrst til þess að skora á hann opinberlega að bjóða sig fram til borgarstjóra,“ sagði Þorbjörg.

Umræðan snerist svo um Evrópumálin í smá stund áður en Guðlaugur svaraði áskorun Þorbjargar.

„Ég er þingmaður Reykvíkinga

„Það er fólk sem býr í Reykjavík og svo er stjórnmálaafl, nánar tiltekið Sjálfstæðisflokkurinn, sem er að tala fyrir hagsmunum fólksins í Reykjavík og þá bara „Já, heyrðu ferð þú bara ekki í borgarstjórn?“ Þessi mál sem við erum að tala um tengjast bæði ríki og borg,” sagði Guðlaugur.

Þorbjörg greip þá fram í fyrir honum og sagði samgöngur einnig tengjast Hafnarfirði og Kópavogi. „Þú talar aldrei um það,“ sagði Þorbjörg.

„Ég er þingmaður Reykvíkinga,“ sagði hann.

„Ahh ég skil. Ekki landsins alls?“ sagði Þorbjörg.

Guðlaugur kvaðst vera hvoru tveggja og Þorbjörg sagði þá: „Ekki Hafnfirðinga.“

Björn Ingi Hrafnsson heldur úti hlaðvarpinu.
Björn Ingi Hrafnsson heldur úti hlaðvarpinu. mbl.is/María Matthíasdóttir

Borgarstjórnarmeirihlutinn gæti ekki að hagsmunum borgarbúa

„Ef við erum ekki að gæta hagsmuna Reykvíkinga, hver á þá að gera það? Við erum hérna að horfa á – því þetta er sameiginlegt verkefni, til dæmis samgöngurnar – að þá erum við að horfa á borgarstjórnarmeirihluta sem ætlar ekki að auka umferð í Reykjavík,“ sagði Guðlaugur.

Hann sagði að það væri skrýtið að gagnrýna þingmenn fyrir að tala fyrir hagsmunum kjósenda í eigin kjördæmi og benti á það að oft áður hefðu þingmenn í Reykjavík gert það.

„Við erum með borgarstjórnarmeirihluta, sem meðal annars Viðreisn er í, sem er ekki að gæta hagsmuna Reykvíkinga. Og ég sem frambjóðandi til þings get ekki látið eins og ég viti ekki af því,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert