Hækkun varnargarða frá þeim stað þar sem áður var bílastæði Bláa lónsins að Njarðvíkuræðinni er komin ágætlega á veg og mun halda áfram í nótt. Gert er ráð fyrir að tveir varnargarðar verði hækkaðir um 3-4 metra.
Arnar Smári Þorvarðarson, byggingartæknifræðingur hjá Verkís, segir í samtali við mbl.is að unnið sé á tveimur svæðum.
„Annars vegar frá hitaveitulögninni til vesturs og hins vegar frá þar sem áður var bílastæði Bláa lónsins og á móti, í norðaustur átt.“
Greint var frá því í gær að hraungarður hafi hækkað og náð hæð varnargarða á einhverjum svæðum og staðfestir Arnar það.
„Já, já, það er búið að ná hæð varnargarðanna hérna á þessum kafla. Alveg frá þar sem áður var bílastæði Bláa lónsins og alveg að hitaveituæðinni.“
Hann tekur þó fram að þótt víða séu komnir toppar hraungarðs upp fyrir varnargarðana sé ekkert farið að skríða yfir garðana.
„Það bara skríður meðfram hérna. Það er nú reyndar orðið mjög hægt, enda hefur hægt á í gosstöðvunum.“
Aðspurður segir hann um 25-30 starfsmenn vera að störfum við verkið og að vinnan muni halda áfram í nótt og næstu daga.
„Það er í rauninni þessi vinna sem verður áfram bara næstu daga. Að hækka þetta og endurheimta kannski einhverjar leiðir hérna um svæðið þar sem við þurfum að komast eitthvað um.
Svo verður skoðuð ný staða.“
Hvað er gert ráð fyrir að varnargarðurinn verði hækkaður mikið?
„Þetta eru svona þrír til fjórir metrar.“
Spurður um hvort hraungarður hafi náð hæð varnargarða á öðrum svæðum sem þyrfti þá einnig að skoða segir Arnar svo ekki vera.
„Nei, þetta er í rauninni eini staðurinn sem hraunið snertir garðana. Það er hér, það sem kallað er leggir L3 og L4. Annars staðar snertir hraunið ekki.“
Hann segir þó að hraun renni einnig til norðurs sem hafi ógnað háspennumöstrum.
„En ég veit ekki hvernig staðan er þar núna. Eftir því sem ég best veit þá er það óbreytt staða.“
Hann tekur þó fram að lokum að vinna dagsins gangi vel.
„Ekkert óvænt neitt þannig lagað, en það bara gengur allt vel.“