Fyrstu lotu verkfalla lækna, sem átti að hefjast á miðnætti, hefur verið aflýst eftir að samkomulag náðist um helstu atriði nýs kjarasamnings í kvöld. Er þá um að ræða verkfallsaðgerðir sem boðaðar höfðu verið í þessari viku.
Enn á þó eftir að ganga frá einstökum atriðum í samningunum og halda samningaviðræður því eitthvað áfram í kvöld. Þráðurinn verður svo væntanlega tekinn upp að nýju á morgun.
Þetta staðfestir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, í samtali við mbl.is.
„Það hefur þokast vel í samkomulagsátt í dag en þetta er bara það viðamikið verkefni að við þurfum aðeins meiri tíma. Við berum vonir til þess að þetta náist sem fyrst. Þetta er ekki alveg komið þangað að við getum skrifað undir í kvöld,“ segir Steinunn.
Aðspurð hver þessi atriði eru sem ekki eru frágengin segir Steinunn þau snúa að betri vinnutíma lækna.
„Þetta snýst um kjör á vöktum og fleiri atriði, en það er það helsta sem við erum aðallega að ræða núna. Þetta er allt hluti af betri vinnutíma en okkur greinir svolítið á þarna.“
Hún leyfir sér þó að vera bjartsýn á að samkomulag náist um nýjan kjarasamning og að hægt verði að skrifa undir hann á næstu dögum.
„Ef maður ætlar að vera bjartsýnn þá horfir þetta ágætlega við, en áfram eins og alltaf, með þessum fyrirvörum. Það er ekkert búið fyrr en það er búið.“