Víðir Reynisson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, telur að ákvörðun Þórðar Snæs Júlíussonar, um að taka ekki sæti á þingi ef hann yrði kjörinn, hafi verið það eina rétta í stöðunni.
Þetta kemur fram í máli hans í viðtali við Morgunblaðið.
„Auðvitað situr málið eftir og Þórður heldur áfram að vinna í því og hefur sýnt það að hann ber hag kvenna fyrir brjósti og ætlar að einbeita sér að því að hans iðrun komi skýrt fram og sé raunveruleg.
Við styðjum hann bara í því en þetta held ég hafi verið eina rétta í stöðunni fyrir hann á þessum tíma. Líka bara fyrir hann sjálfan að fá vinnufrið við það sem hann vill einbeita sér að,“ segir Víðir og tekur fram að það sé eftirsjá af honum.
Þórður Snær, sem skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, hyggst ekki taka sæti á þingi, jafnvel þó hann hljóti kjör í komandi kosningum. Heldur hyggst hann eftirláta næstu konu á listanum sæti sitt, sem yrði Dagbjört Hákonardóttir þingmaður.
Þórður gekkst við því í Spursmálum að hafa viðhaft skrif á bloggsíðunni „Þessar elskur“ frá 2004-2007 en þar gerði hann konur gjarnan að umfjöllunarefni sínu, oft á niðrandi og klámfenginn hátt.
Er ekki hætt við því að einhver svona mál trufli ykkar málflutning?
„Jú örugglega. Öll svona neikvæð umræða truflar alla flokka. Við höfum nú séð þetta vera birtast hjá fleiri flokkum en okkur,“ svarar Víðir.
Hann segir að Þórður, sem skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, sé búinn að sýna gríðarlegt fordæmi í því hvernig menn eigi að biðjast afsökunar án nokkurs fyrirvara.
Víðir segir undir Þórði komið hvort að hann snúi aftur í stjórnmál seinna.
„Maður kemur í manns stað í þessu,“ segir hann og bendir á að Dagbjört komi stað Þórðar.