Víðir Reynisson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, er nýr í stjórnmálum og segir nýja vettvanginn vera bæði gefandi og krefjandi.
„Það er gott að búa á Íslandi og Ísland er gott land en það þarf að laga eitt og annað og saman getum við gert það,“ segir hann.
Víðir segir efnahagsmál, heilbrigðismál og samgöngumál vera stærstu verkefnin á þessari stundu.
Spurður hvernig eigi að afla aukinna tekna fyrir ríkissjóð nefnir hann möguleikann á því að setja einhvers konar auðlindagjald á ferðamenn.
„Ríkið rekur tíu vinsælustu ferðamannastaði landsins. Ef við segjum að það kosti tíu þúsund krónur að heimsækja þessa staði samtals þá skilar það 15 milljörðum í ríkiskassann á ári,“ segir Víðir en bætir við að þetta þurfi að gera í samstarfi við ferðaþjónustuna.
Einnig þurfi að skattleggja frekar þá sem hafa meira á milli handanna. Þá segir hann að efla þurfi vegakerfið í Suðurkjördæmi.